Hið heimsþekkta lag "El Condor Pasa" er gott dæmi um panflaututónlistina sem einkennir norðurhluta Andesfjallanna. Það fjallar kondorinn, sem er stærsti fljúgandi fugl heims og ákaflega tignarlegur. Til að börnin fengju betur á tilfinninguna að lagið fjallaði um kondor gerði ég stóran fugl úr pappír og lét hann fljúga yfir þau. Sjá myndskeið hér neðar á síðunni.

El_Condor_Pasa

Þegar við lékum lagið fyrst fyrir börnin sögðum við þeim að þau ættu að ímynda sér að þau byggju í litlu þorpi langt uppi í fjöllunum og að þau ættu að hlusta vel á tónlistina og ímynda sér hvað væri að gerast og hvernig þeim liði.

El Condor Pasa skiptist í þrjá kafla (a.m.k. sú upptaka sem við notuðum - þær geta verið mismunandi). Í fyrsta hlutanum, sem er rólegur, liggja öll börnin og "sofa" - og hlusta róleg á tónlistina. Í upphafi annars kafla heyra þau að sólin er að koma upp, og þá setjast þau upp, fara þau á fætur og borða morgunmat. Síðan fara þau út að leika sér, dansa e.t.v. með slæður. Í þriðja kaflanum kemur kondorinn fljúgandi. Þau líta upp í loftið, verða glöð við að sjá hann og fylgja á eftir honum hoppandi og dansandi. Að lokum flýgur kondorinn burt, hátt upp á fjall. Það er komið kvöld. Börnin veifa til hans og hrópa bless, og svo fara þau aftur heim að sofa.

Ath.: þrískiptingin er ekki svo greinileg á þessu tónlistarmyndbandi, en það gefur samt fallega mynd af Andesfjöllunum.

Lagið "El Condor Pasa" var samið af Daniel Alomia Robles frá Perú árið 1913. Hann sótti innblástur sinn til þjóðlagatónlistar úr Andesfjöllum.
Panflautur og fleiri hljóðfæri frá Andesfjöllunum
Panflautur
Kondorinn er þjóðarfugl Ekvadors, eins og sést á skjaldarmerki landsins.
Ekvador