Þessi leikur er mjög vinsæll því að hann fær börnin alltaf til að hlæja. Börnin sitja í hring og halda í bláan dúk (úr klæði eða plasti) sem táknar hafið. Lagið er sungið, og þau gera öldur eins og það gefur til kynna. Í lokin geta þau breyst í fiska og skriðið undir dúkinn.

Hafið_er_rólegt

Á myndinni sést taufiskur frá IKEA á dúknum. Börnunum finnst gaman að sjá fiskana fylgja öldunum og kastast til þegar vindurinn fer að aukast.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan er bolti "úti í sjónum". Þá er hægt að segja börnunum sögu um litla stelpu sem missir boltann sinn út á sjó, og hafið skemmtir sér svo mikið með hann að það vill ekki skila honum aftur (sagan er hugsuð þannig að börnin eigi að reyna að halda boltanum á dúknum). Þó að það sé gaman þegar boltinn skoppar af dúknum, getur það samt verið truflandi fyrir börnin (því oftast skoppar boltinn of fljótt af), og þess vegna finnst mér rólegra að nota taufiska í staðinn, vegna þess að þeir haldast á honum.

Eitt sem ég er ánægð með varðandi þessa upptöku er að hún var gerð þegar við komumst ekki í íþróttasalinn svo að við ýttum bara borðum til hliðar í matsal og skemmtum okkur konunglega. Það sýnir að það þarf ekki mikið pláss eða neitt sérstakt skipulag til að geta gert tónlistarleiki og annað lifandi tónlistarstarf.

Textinn

Hafið er svo rólegt, rólegt, rólegt,
hafið er svo rólegt, rólegt, rólegt.

Síðan fer að blása, blása, blása,
síðan fer að blása, blása, blása.

Nú er mikill vindur, vindur, vindur,
nú er mikill vindur, vindur, vindur.

Fiskarnir þeir synda, synda, synda,
fiskarnir þeir synda, synda, synda.

Höfundur: Helga Björg Svansdóttir.
Lagið er að finna á diski sem Helga dreifði á námskeiði um músíkþerapíu sem hún hélt árið 2004.