Hring eftir hring eftir Elfu Lilju Gísladóttur er alveg bráðnauðsynleg eign fyrir sérhvern leikskóla þar sem markvisst er unnið með tónlist og hreyfingu. Bókin var gefin út í litlu upplagi, þannig að það er um að gera að hafa samband við Elfu Lilju sem fyrst og útvega sér eintak :o)

Elfa Lilja Gísladóttir: Hring eftir hring
Hringeftirhring

Á málþingi um tónlistarnám barna 1-6 ára í mars 2007 heyrði ég fyrst að Elfa Lilja væri að vinna að þessari bók. Það var greinilegt að Elfa vann af miklum eldmóði og innblæstri, en líka á mjög faglega traustum grundvelli, þannig að ég beið bókarinnar með mikilli eftirvæntingu. Þegar hún svo kom út snemma árs 2009 kom í ljós að hún hafði algerlega verið þess virði að bíða eftir henni :o) Þetta er frábær bók í alla staði og að mínu mati einmitt þess konar uppflettirit og hugmynda- og lagasafn sem allir, sem vinna að tónlistarstarfi í leikskóla, þurfa á að halda.

Bókin er rúmlega 200 bls. í A4-broti, í hörðu bandi. Frágangur er allur hinn snyrtilegasti, mikið af litmyndum og umbrot mjög smekklegt. Í henni eru 79 sönglög með nótum. Öll lögin er að finna á tveimur geisladiskum sem fylgja með bókinni.

Faglegur grundvöllur bókarinnar er meistaraprófsritgerð um tónlistarkennslu í leikskóla sem Elfa Lilja skrifaði við tónlistarháskólann Mozarteum í Salzburg.

Finna má dæmi um lag úr bókinni hér á Börn og tónlist. Það heitir Hunangsflugan.

Kaflarnir í bókinni

  1. Velkomin! Nafna- og kveðjuleikir
  2. Öndun og rödd
  3. Þulur, rímur og romsur
  4. Að syngja söngva
  5. Líkaminn sem hljóðfæri
  6. Hljóðfæri - í upphafi var tromman
  7. Heimasmíðuð hljóðfæri
  8. Grafísk nótnaskrift
  9. Hlustun á tónlist og hreyfingu
  10. Skynfæri og líkamsvitund
  11. Hreyfing, leikur, samvinna
  12. Hreyfingar með efnivið
  13. Að dansa og dansa dansa
  14. Spenna og slökun

PDF-bæklingur um bókina