Drekadans er dæmi um verkefni þar sem börnin búa til dansspor í kringum drekaþema sem hefur verið unnið með á margvíslegan hátt: hlustað var á ævintýri, farið í leik, búnar til grímur og börnin sömdu drekasögur. Verkefnið hentar fyrir 3-6 ára börn.

Stelpa með drekagrímu
Stelpa_med_drekagrimu
Drekagríma
Drekagrima

Í október 2007 var kínversk menningarhátíð í Kópavogi, og eftir heimsókn á listasafnið datt okkur fljótlega í hug að vinna nánar með dreka sem þemadýr mánaðarins.

Samverustundir, sögustundir og leikir fjölluðu á ýmsan hátt um dreka, m.a. skoðuðum við muninn á drekum í vestrænni sagnahefð annars vegar og austrænni hins vegar.

Í þessu samhengi notuðum við líka söguna Xiao Sheng og töfraperlan ásamt meðfylgjandi efni: leik og tónlist.

Drekagrímur, hengdar upp í loftið
Drekagrimur

Börnin gerðu dreka úr bláum og rauðum pappír, sem við svo plöstuðum. Þeir voru settir á spýtu og fengu hala úr rauðu efni.

Við ákváðum að virkja sköpunarmátt barnanna og báðum þau um að búa til dans. Það voru þriggja ára börnin, þau yngstu í hópnum, sem voru nýkomin á deildina , sem við fengum til þessa. Þau áttu að ímynda sér hvernig drekar myndu hreyfa sig í dansi og svo sýna það. Hvert barn valdi sér einhverja hreyfingu og við hjálpuðum þeim að tengja þær saman í einn dans. Dansinn hafði tvo meginhluta: fyrst gerðu allir "drekarnir" sömu danshreyfingarnar, og svo "flugu" þeir frjálst um með drekagrímurnar.

Seinna kenndum við eldri börnunum dansinn líka og hóparnir héldu sýningu hvor fyrir annan.

Undirleikurinn við dansinn var náttúrulega kínversk tónlist.

Hér að neðan má sjá myndband af YouTube með upptökum af dansinum (reyndar aðallega æfingum). Sjá einnig myndirnar hér á síðunni.

Verkefnið unnu: Ingibjörg Sveinsdótir og Birte Harksen, Heilsuleikskólanum Urðarhóli (Kópavogi).