Afi og rófan

Þessi saga með sungnu viðlagi er mjög vinsæl meðal 3-6 ára barna vegna þess að börnin eru svo virk meðan sagan er flutt - þau gera ýmsar hreyfingar og hjálpa líka til með frásögnina. Eins og sést á fyrstu myndinni kemur það vel út ef notaðar eru litlar fígúrur eða teiknaðar persónur til að byggja upp söguna.

Kennarinn byrjar á því að leggja niður myndina af afa og rófunni og hefur söguna. Þegar kemur að því að afi sé að toga, syngur hann (og börnin líka) línuna og sýnir þeim um leið hvernig þau eiga að toga með höndunum. Við "Ó, nei!" krossleggja allir hendur á brjósti og hnykla brýrnar. Því næst er kallað á ömmu með hjálp barnanna. Eftir því sem fleiri bætast við í hópinn sem er að toga í rófuna fara börnin með röðina á því hver heldur í hvern. Hér má heyra stutta upptöku af laginu sem ég nota með sögunni: Afi_Og_Rófan.m4a.

Seinna þegar börnin þekkja söguna vel er hægt að láta þau leika persónurnar og toga í reipi sem er fest við eitthvað, og ef börnin eru fleiri en persónurnar er auðvelt að bæta við fleiri persónum (eða dýrum). Gaman er að detta í lokin þegar rófan losnar.

Afi og rófan

Afi plantaði rófu og sagði:
Nú skaltu vaxa, rófa mín. 
Þú skalt vaxa og vaxa og verða sæt.
Þú skalt vaxa og vaxa og verða stór.
Og rófan óx og óx.
Hún varð sæt, hún varð sterk, hún varð stór.
Afi fór að toga rófuna upp.

"Og hann togaði og togaði í rófuna
en hún hreyfðist ekki neitt - Ó nei!"

Afi kallaði á ömmu:
”Amma! Komdu að hjálpa mér!”
Amma kom, amma hélt í afa
og afi hélt í rófuna.
Og afi sagði; ”1-2-3”

"Og þau toguðu og toguðu í rófuna
en hún hreyfðist ekki neitt - Ó nei!"

Amma kallaði á stelpuna:
”Stelpa! Komdu að hjálpa mér!”
Stelpan kom, stelpan hélt í ömmu,
amma hélt í afa,
og afi hélt í rófuna.
Og afi sagði; ”1-2-3”

"Og þau toguðu og toguðu í rófuna
en hún hreyfðist ekki neitt - Ó nei!"

Stelpan kallaði á hundinn:
”Hundur! Komdu að hjálpa mér!” 
Hundurinn kom, hundurinn hélt í stelpuna,
stelpan hélt í ömmu,
amma hélt í afa,
og afi hélt í rófuna.
Og afi sagði; ”1-2-3”

"Og þau toguðu og toguðu í rófuna
en hún hreyfðist ekki neitt - Ó nei!"

Hundurinn kallaði á köttinn:
”Köttur! Komdu að hjálpa mér!”
Kötturinn kom, kötturinn hélt fast í hundinn,
hundurinn hélt í stelpuna,
stelpan hélt í ömmu,
amma hélt í afa,
og afi hélt í rófuna.
Og afi sagði; ”1-2-3”

"Og þau toguðu og toguðu í rófuna
en hún hreyfðist ekki neitt - Ó nei!"

Kötturinn kallaði á litlu músina:
”Mús litla! Komdu að hjálpa mér!”
Litla músin kom, músin hélt fast í köttinn,
kötturinn hélt fast í hundinn,
hundurinn hélt í stelpuna,
stelpan hélt í ömmu,
amma hélt í afa,
og afi hélt í rófuna.
Og afi sagði; ”1-2-3”

Og þau toguðu og toguðu í rófuna
og þá kom hún loksins upp - Húrra!"

Hugmynd eftir: Renée Adrian (Musikalsk legestue nr. 3).

Síðast breytt
Síða stofnuð