Allir hafa eitthvað til að ganga á

Þetta frábæra lag eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem flestir Íslendingar þekkja, er mjög gaman að nota með börnunum af því að það eru nefnd svo mörg dýr í því og vegna þess að það er svo eðlilegt að hreyfa sig við það í samræmi við textann. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan hef ég líka gert myndrenning við lagið til þess að börnin sjái dýrin betur fyrir sér.

Hér er kannski ágætur staður til að lýsa því nánar hvernig ég geri myndrenningana. Þótt það geti tekið dágóða stund, finnst mér það alltaf borga sig því að það skilar sér í meiri innlifun barnanna, auk þess sem þau eiga auðveldara með að læra textann og fylgjast með í söngnum.

Ég byrja á því að leita á netinu að teikningum sem passa við atriði í textanum. Hér hefur myndaleit Google reynst mér best. Til að takmarka leitina við teikningar er gott að nota orðið "clipart" með því sem maður er eiginlega að leita að. Ef maður t.d. er að reyna að finna myndir af fílum, leitar maður að "elephant clipart".

Þegar ég hef fundið þær myndir sem ég vil nota, prenta ég þær út í viðeigandi stærð, klippi út og lími á renning úr þykkari pappir. Síðan set ég bókaplast yfir til að vernda þær fyrir hnjaski og til að börnin geti leikið með renningana án þess að hætta sé á að þeir skemmist.

Allir hafa eitthvað til að ganga á

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Fíllinn hefur feitar tær,
ljónið hefur loppur tvær,
músin hefur margar smáar,
en ormurinn hefur ansi fáar.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Fiskurinn hefur fína ugga,
flóðhesturinn engan skugga 
krókódíllinn kjaftinn ljóta,
sá er nú klár að láta sig fljóta.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Á vængjunum fljúga fuglarnir,
á fótunum ganga trúðarnir,
á hnúum hendast aparnir,
á rassinum leppalúðarnir.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Lag og texti: Ólafur Haukur Símonarson
Lagið er að finna á disknum "Eniga Meniga".

Síðast breytt
Síða stofnuð