Hljóð sem passa saman

Hér er samstæðuspil sem byggir á hljóðum fremur en myndum. Maður á semsagt að finna tvö hljóð sem passa saman. Ég nota til þess þar til gerðar hristur, sem eru bara plastdollur með mismunandi innihaldi. Börnin eiga að heyra út frá hljóðunum sem þær mynda hvernig eigi að para þær saman. Það getur líka verið gaman að fá börnin með sér í að finna út hvað eigi að setja í dollurnar til að skapa mismunandi hljóð.

Hljóð sem passa saman

Finndu hljóð sem passa saman,
finndu hljóð sem passa saman!
Veldu tvær,
og hristu þær,
svo hljóðið heyrist nið'rí tær!

Lag og texti: Birte Harksen

Lýsing

Lagið hér að ofan er sungið í hvert sinn sem samstæða finnst, og á meðan gerum við hreyfingar sem sjást í myndskeiðinu.

Ef um yngri börn (2-3 ára) er að ræða þarf að kynna leikinn betur fyrir þeim. Það þarf að skoða inn í dollurnar áður en við byrjum svo að þau geri sér grein fyrir hvers vegna hljóðin eru mismunandi og geti tengt hljóðið við innihaldið. Í fyrstu skiptin sem leikurinn er leikinn koma þau heldur ekki upp til að velja dollur og hrista sjálf, heldur tekur kennarinn dollur, hristir þær og spyr börnin hvort þær passi saman.

Með eldri börnum má gera þetta svona: Dollunum er raðað upp. Börnin sitja í hring í kringum þær. Allir syngja vísuna í upphafi og hún er endurtekin þegar samstæða finnst.

Svo velur fyrsta barnið (eða tvö börn saman) tvær dollur og hristir þær. Ef þær eiga saman, tekur það báðar og geymir hjá sér, annars eru þær settar aftur á sama stað Svo er vísan sungin aftur og næsta barn reynir fyrir sér, og svo koll af kolli. (Við sleppum þeirri reglu að börnin megi reyna aftur ef þau finna par).

Myndskeið

Myndskeiðið var tekið upp á Aðalþingi haustið 2023. Börnin voru 5 ára.

Síðast breytt
Síða stofnuð