Rassálfadans

Rassálfadansinn er einfaldur og skemmtilegur hreyfileikur eftir Ingibjörgu (Immu) Sveinsdóttur. Hann byggir á tveimur bókum: "Ronja ræningjadóttir" eftir Astrid Lindgren og "Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni" eftir Werner Holzwarth. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan sjást svipmyndir úr hreyfileiknum.

Myndskeið

Frásögnin

Formið er notað á sögunni af moldvörpunni en lagað að innihaldi Ronju ræningjadóttur. Í stað þess að skíta á koll moldvörpunnar segir sögumaður frá því hvernig einhver dansandi hópur verður til þess að vekja barn rassálfapabba (Rasmusar rassálfs).

Rassálfapabbi fer út ansi óhress til að skamma sökudólgana sem eru á bak og burt.

"Akkuru, akkuru," segir hann.

Hann leggur af stað og finnur fyrst hóp grádverga og spyr: "Akkuru, akkuru! Akkuru gerðuð þið þetta? Akkuru voruð þið að vekja barnið? Akkuru, akkuru!" Grádvergarnir svara: "Það vorum ekki við. Við gerum svona þegar við dönsum". Síðan dansa þeir grádvergadans. Kennarinn sýnir dansinn og gerir viðeigandi hljóð, og börnin gera slíkt hið sama.

Rassálfapabbi heldur áfram og spyr á sama hátt og áður

  • hóp huldufólks
  • skógarnornirnar
  • Matthías og ræningjana
  • Ronju og Birki

og hver hópur sýnir sinn dans til að sanna sakleysi sitt.

Að lokum heitir rassálfapabbi tíst á bak við tré, þar sem rassálfabörnin eru saman komin til að dansa, og þekkir rassálfapabbi þar aftur sökudólgana.

Síðan dansa allir rassálfadansinn.

Tillögur að dansi hópanna

  • Grádvergar dansa þunglamalega: lyfta varla fótunum og vagga til og frá er þeir þramma hver innan um annann. Þeir yggla sig og humma t.d. "humm, humm, humm, allir grádvergar, bítum og sláum, humm, humm, humm".
  • Huldufólk dansa létt eins og líði áfram og syngja "la-la-la-la-la" lágt og óvíst, hvísla jafnvel.
  • Skógarnornirnar dansa með blakandi vængi eins og þær stingi sér niður og teygi fram klærnar um leið og þær skrækja upp.
  • Matthías og ræningjarnir dansa stórkarlalega: sveifla höndum og hoppa og skoppa um meðan þeir kalla upp "hó, hó, hó, ræningjar erum við!"
  • Ronja og Birkir dansa gleðidans með háum hnélyftum með hendur upp í loft og snúa sér í hring og kalla jafnvel "jíha!".
  • Rassálfar dansa með hröðum stuttum skrefum þar sem aðalatriðið er að reka út rassinn og dilla bossanum hraustlega.

Endurnýtingarmöguleikar: Formið á sögunni um moldvörpuna má nota á marga vegu, t.d. ef leika á sögupersónur eða dýr með því að líkja eftir þeim, dansa, syngja eða gefa frá sér hljóð.

Hugmynd og útfærsla: Ingibjörg (Imma) Sveinsdóttir, kennari á Heilsuleikskólanum Urðarhóli.

Síðast breytt
Síða stofnuð