Gerum takt með bumbuslætti

Gerum takt með bumbuslætti er góð æfing í að halda takti og stoppa til skiptis. Hentar vel fyrir 4 ára og eldri - og er einnig gott í yngstu bekkjum grunnskóla. Ef maður er ekki með nóg af trommum handa öllum er hægt að taka t.d. dósir og plastfötur úr eldhúsinu. Gaman er að nota stóra "gathering drum" ef hún er til (sjá mynd). Það er líka hægt að blanda saman hljóðfærum, þannig að sumir eru t.d. með hristur, tónstafi eða önnur ásláttarhljóðfæri.

Gerum takt með bumbuslætti

Gerum takt með bumbuslætti,
spilum nú af öllum mætti,
allir stoppa ef ég hætti
- NÚ!

Gerum takt með bumbuslætti,
spilum nú af öllum mætti,
Óli spili með sínum hætti
- NÚ!

Við "NÚ!" taka allir hendurnar upp í loftið (nema e.t.v. þeir sem eiga að spila sóló) og við höfum pásu sem varar í síðustu 3 taktana af línu (ein lína er 4 taktar, og NÚ! er sagt á fyrsta taktinum). Allir klappa svo einu sinni á upptaktinum að næsta erindi.

Línan "Óli spili með sínum hætti" er náttúrulega breytileg. Í stað hennar getur t.d. komið:

...
Stelpur spili með sínum hætti
Hristur spili með sínum hætti
Trommur spili með sínum hætti
o.s.frv.
...

"Gerum takt með bumbuslætti" er þýðing á "Vi er alle sammen vilde" eftir Lotte Kærså.
Þýðing: Baldur Kristinsson og Birte Harksen, september 2007.

Síðast breytt
Síða stofnuð