„Línu“-dans

Að teikna "línu" eftir tónlist og að túlka hana gegnum dans og hreyfingu er einföld og skemmtileg hugmynd sem við fengum frá ítalska dansskólanum, Segni Mossi. Við notuðum mjög mismunandi tónlist í hvert skipti og það hafði mikið að segja fyrir hreyfingu barnanna eins og sjá má á myndskeiðinu neðst á síðunni.

Imma skrifaði í vikupósti:

Á fimmtudag hófst nýtt þema í elstubarnastarfi þar sem verður lögð áhersla á hreyfingu t.a.m. gegn um tónlist og myndlist. Við hlustuðum á tónlist og ímynduðum okkur hvernig við myndum teikna og hreyfa okkur með henni. Síðan teiknuðum við sameiginlega línu á ganginum meðan við hlustuðum og dönsuðum síðan eftir því sem línan leiðbeindi okkur. Var þetta mjög nýstarlegt og framandi og þurfti talsvert hugrekki til að láta bara vaða. Sumir féllu strax fyrir þessu en aðrir fóru varlega og var gaman að sjá krakkana öðlast meira hugrekki og leika sér að fylgja línunni það sem eftir var af vikunni hvort sem var með dansi eða fingrinum.

Eftir annað skiptið (þar sem teiknað var og dansað við vélmennatónlist) fóru börnin að tala um að í Kársnesskóla (sem er hverfisskólinn okkar) væri spegil-veggur í tónlistarstofunni og þau langaði til að prófa að dansa þar fyrir framan spegilinn eins og gert er í myndskeiðinu frá Segni Mossi. Skólinn tók vel í þessa beiðni okkar og þetta varð mjög eftirminnileg stund sem gleymist seint og verður örugglega endurtekin á næsta ári sem hluti af elstubarnastarfinu.

Tónlist

  1. Michael Nyman: "The Heart Asks Pleasure First" úr myndinni "The Piano".
  2. "Robotboys feat. Poppin John" Fundið á YouTube.
  3. Aaron Neville: "You've Got To Move".

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð