Amma og draugarnir

Amma og draugarnir er samspil söngs og brúðu/skugga leikrits með þáttöku áhorfenda. Best er að tveir kennarar flytji leikritið einn sem heldur utan um sönginn og annar leikritið. Ingibjörg (Imma) Sveinsdóttir úr Heilsuleikskólanum Urðarhóli lýsir hér ferlinu og ennig er hægt er að sjá brot úr leikritinu neðst á síðunni:

Amma og draugarnir

Hún amma mín gamla
lá úti í gljúfri.
Dimmt var það gljúfur
og draugalegt mjög.

En amma mín mælti,
og útaf hún hallaði sér:
"Ég læt engan svipta mig svefni í nótt;
sama hver draugurinn er."

Kom þar hún Skotta 
Með skotthúfu ljóta.
Tönnum hún gnísti,
Glotti og hló
En amma mín mælti...

Kom þar hann Móri 
á mórauðri treyju,
Ofan sitt höfuð 
Af hálsinum tók.
En amma mín mælti...

Kom þar hann Glámur 
Með glyrnurnar rauðar.
Kurteislegt ekki 
Var augnaráð hans.
En amma mín mælti...

Kom þar einn boli, 
Kenndur við Þorgeir, 
Æstur í skapi 
Og öskraði hátt. 
En amma mín mælti...

Loks kom hann afi 
Að leita að ömmu.
"Æ ertu hér," sagði hann,
"Elskan mín góð."
En amma mín mælti...

Lag: Írskt þjóðlag ("Isn't it grand, boys")
Texti: Jónas Árnason

Myndskeið

Undirbúningur

Við strengdum þunnt hvítt efni yfir grind sem leiksvið. Amma var handbrúða en draugarnir voru klipptir út í svart karton og rautt gegnsætt efni sett í augu (t.d Glámur), nasir (Þorgeirsboli) eða þar sem það hentaði. Þegar draugarnir reyndu að hræða ömmu héldu þeir sig bak við hvíta efnið meðan amma lagði sig fyrir framan. Lýst var á þá með vasaljósi sem var hreyft nær og fjær, og sveiflað eftir því sem passaði þannig að þeir flöktu yfir ömmu. Börnin höfðu líka lært lagið vel fyrirfram og gátu því sungið með sem hluti af sýningunni.

Í byrjun leikritisins gengur amma fram fyrir tjaldið og kynnist krökkunum. Eftir smá spjall segir hún þeim frá því að henni þyki svo notalegt að halla sér í gilinu. Hún leggst síðan niður og sofnar en draugarnir koma síðan í réttri röð og reyna að hræða ömmu. Fyrst tala þeir við krakkana, kynna sig og segja frá sjálfum sér frekar sjálfsánægðir t.d Skotta sem finnst svo gaman að hrekkja, Glámur sem er "frægasti" draugur Íslands og Þorgeirsboli sem er frekar geðvondur.

Eftir að hver draugur hefur reynt að hræða ömmu, syngja allir, bæði áhorfendur og leikendur, erindið sem fjallar um þann draug (síðastur kemur afi, sem skiptar skoðanir eru um hvort sé líka draugur). Að lokum vaknar amma og segist hafa dreymt svo undarlega. Hún er síðan upplýst af krökkunum um hvað hafi gerst og hún spjallar dálítið við þá áður en hún segist ætla að halda heim og fá sér nýjar kleinur og kaffi og hvort megi ekki bjóða þeim í bæinn.

Gaman er að hafa draugana sem ýktasta til að fá viðbrögð frá krökkunum. Glámur verður t.d afar móðgaður þegar krakkarnir segja honum að hann sé nú ekkert svo flottur. Og allir verða draugarnir frekar spældir þegar krakkarnir segja þeim að þeim hafi ekki tekist að hræða ömmu.

Síðast breytt
Síða stofnuð