Hver borðar hákarl?

Hugmyndin að þessu lagi kom þegar við vorum einu sinni að vinna með hákarlaþema og börnin voru mjög áhugasöm um það hvað hákarlar borða... Umræðurnar fóru af stað og fyrr en varið var þetta búið að snúast yfir í pælingar um fæðukeðjuna: Hver borðar hvað? Lagið er ítalskt og heitir Ci vuole un fiore, en ég gerði nýjan texta, sem passaði vel við þetta þema. Þetta var skömmu eftir þorrablótið, svo að endirinn var auðvitað upplagður: "Hver borðar hákarl? Það gera krakkarnir á Urðarhóli!" (og nú Aðalþingi).

Hver borðar hákarl?

Hver borðar laufblað?
Það gerir lirfan.
Hver borðar lirfuna?
Það gerir unginn.
Hver borðar ungann?
Það gerir mávur.
Hver borðar mávinn?
Það gerir selur.
Hver borðar selinn?
Það gerir hákarl.

Hver borðar hákarl?
Hver borðar hákarl?
Það gera krakkarnir
á  Urðarhóli

(Nafninu breytir maður að sjálfsögðu svo að það passi við leikskóla eða deild.)

Texti: Birte Harksen
Lag: Ci vuole un fiore

PDF-skjöl

Hver borðar laufblað? Það gerir lirfan!

Hver borðar selinn? Það gerir hákarl!

Myndskeið

Hér er lagið eins og við Imma notuðum það í Birte- og Immustund um Hver borðar hvað. Auk lagsins er hér líka smá sprell þar sem ég plata Immu til að borða hákarl á meðan ég fæ mér nammi:

Alvöru hákarl rekur í land

Ætli það sé hægt að finna fæðukeðjuna alla í honum?

Hvað borðaði hákarlinn?

"Annars var eflaust það markverðasta þessa vikuna að við fengum góðan gest í heimsókn, að vísu dauðan en góðan engu að síður. Það var HÁKARL! Já haldið nú niður í ykkur andanum eins og ég gerði þar sem ég lá í gubbupestinni heima... Hafði ég nú misst af ómissandi upplifun? En viti menn, daginn eftir fór hópur af alsælum börnum með mig inn í listaskála að sýna mér gersemina.

Og þarna lá hann litla krúttið, 30 cm, og ég sem hafði látið mig dreyma um tilkomumikinn hákarlshaus með vígalegum tönnum. En maður skyldi aldrei gera lítið úr þeim litlu. Hann var með hrjúfan skráp og þó að hann sýndist tannlaus í fyrstu voru litlu tennurnar hans (ef maður var það hugrakkur að stinga puttanum upp í hann) flugbeittar.

Það var líka það sterk lykt af honum að hún gæti varla hafa verið meiri af þeim stærri. Við skoðuðum nasirnar sem virtust vera fjórar og litlu fjólubláa tunguna sem færði okkur heim sanninn um það að hákarlar hafa tungu en um það hafði þónokkuð verið rætt.

Börnin voru áhugasöm að kryfja hákarlinn sinn þar sem þau voru spennt að sjá alla fæðukeðjuna í honum en ekki var nú farið út í það því eflaust hefðu þau ekki fundið laufblað, máf eða sel í maganum á honum eins og í laginu hennar Birte."

(Þetta skrifaði Imma í föstudagspósti til foreldra Sjávarhólsbarnanna, 10. febrúar 2012).

Skemmtileg sending

Eitt kvöldið fékk ég alveg dásamlega sendingu í formi upptöku :) Ein stelpan á deildinni hafði ásamt vinkonu sinni (fyrirverandi Sjávarhólsstelpu) búið til flottan myndrenning við lagið "Hver borðar hákarl?" sem við syngjum mikið í leikskólanum. Ég fékk leyfi til að setja þetta krúttlega myndskeið á vefinn, en í því má einnig sjá yngri systkini þeirra sem taka vel undir með þeim :)

Hér er myndskeiðið frá vinkonunum tveimur:

Síðast breytt
Síða stofnuð