Sprengisandsspilið

Leiðin yfir Sprengisand getur verið löng og erfið og jafnvel hættuleg á köflum ef maður er að ferðast á hestbaki eins og í laginu "Á Sprengisandi". Ég bjó til þetta samvinnuspil svo að við gætum lifað okkur betur inn í og ímyndað okkur hvað er að gerast í laginu, en líka að sjálfsögðu til að vinna með málörvun og orðaforða. Í spilinu hjálpumst við að með að fá reiðmennina þrjá alla leiðina heim í Kiðagil og þar með í öruggt skjól. Börnin skiptast á að kasta teningnum og færa hestana, en á leiðinni gerist margt bæði gott og slæmt. Ef við lendum á reit með nótum, þá velur barnið erindi úr laginu sem við syngjum öll saman.

Myndskeið

Ég nota spilið aðallega í samverustund með stórum hópi barna sem kasta teningnum til skiptis. Börnin hvetja hvert annað og hjálpast að við að leysa þrautirnir á leiðinni. Myndbandið var tekið upp haustið 2023 á elstu deildinni á Aðalþingi en ég hélt sjálf á myndavélinni og gat því ekki tekið upp nema brot úr stundinni. Það er samt gaman er að segja frá því að í þetta skipti tókst okkur einmitt að ná öllum hestunum heim og öll börn náðu að kasta teningnum áður en samverustundin var búin. Það voru mikil fagnaðarlæti!

Spilið

Spilið virkar á margan hátt eins og LUDO nema það það eru bara 3 peð (= hestar) og við erum öll saman í liði. Til að hestur komist af byrjunarreit þurfum við að fá sexu en þegar fleiri hestar eru komnir af stað þá megum við ráða hvaða hest við færum áfram. Við vinnum spilið þegar allir hestar eru komnir heim í Kiðagil sem er staðstett í miðjunni.

Við komumst áfram með því að kasta teningi og færa hest eftir tölunni. Ef við lendum á gulum reit gerist eitthvað gott. Við tökum gult spjald og lesum hvað stendur. Lendum við hins vegar á rauðum reit gerist eitthvað slæmt, en á fjólubláu reitunum þurfum við að leysa málaþraut (sem ég hef aðlagað að þáttunum í HLJÓM-matinu). Bestu reitir eru að sjálfsögðu þar sem það eru nótur því að þá fáum við að syngja.

Spjöldin

Ég var búin að safna fullt af lokum af skyrdollum (í þeim litum sem eru í uppáhaldi á heimilinu) og bjó til spjöld úr þeim en það er auðvitað hægt að nota bara litaðan pappír eða karton. Hér fyrir neðan eru tvö PDF-skjöl með bæði texta og myndum fyrir spilið:

Orðaforði

Spilið varð til árið 2021 á Urðarhóli þegar deildin okkar var með hestaþema. Hér má sjá mynd þar sem Imma er að skrifa upp fjölmörg orð sem sem tengjast hestum sem við kynntumst í ferlinu.

Í sambandi við sama þema vann annar kennari á deildinni, Hjördís Hrund, að því að hjálpa börnunum að semja hestavísur í anda við "Afi minn fór á honum Rauð". Hér á myndskeiðinu fara nokkur barnanna með vísurnar sínar.

Síðast breytt
Síða stofnuð