Lítil mús í feluleik

Einföld hugmynd gerði lukku hjá yngstu börnunum. Ég var búin að klippa út myndir úr laskaðri Depils-bók og bjó til úr þeim lítið hús með fullt af felustöðum. Þar reynir lítil mús að fela sig fyrir okkur og kettinum. Á myndskeiðinu sést hvernig leikurinn fer fram.

Ein af hugmyndunum með þessu er að æfa börnin í að þekkja forsetningar eins og "fyrir aftan", "inni í", "undir" o.s.frv., og auðvitað líka hvaða falli þær stýra (sem í þessum leik er reyndar alltaf þágufall).

Lagið

Áður en við leitum að músinni syngjum við:

Litla mús, litla mús,
hvar ert þú að fela þig?
Inni í húsi, inni í húsi,
reyndu bara að finna mig!

Síðan koma börnin með hugmyndir að felustöðum og við gáum hvort músin sé þar. Þegar hún er fundin, syngjum við svo:

Litla mús, litla mús,
ég fann felustaðinn þinn.
Það var gott, það var gott,
að ég er ekki kötturinn!

Laglínan er úr Emil í Kattholti og er þar sungið af Ídu systur hans. Á sænsku heitir það "Lille katt" og á íslensku "Kisa mín".

Myndskeið af Skeljahóli og Stjörnuhóli

Síðast breytt
Síða stofnuð