Xiao Sheng og töfraperlan

Hér er tónlist, þjóðsaga, lag og leikur fléttuð saman í eina heild. Róleg kínversk tónlist er spiluð í bakgrunni meðan sögð er þjóðsagan af Xiao Sheng (sjá hér fyrir neðan). Mikilvægt er að flytja söguna á eins lifandi hátt og hægt er, t.d. með því að láta persónurnar tala eða nota leikmuni og "sýna" söguna fremur en að lesa hana upp. Börnin þurfa að sjá atburðarásina og hið framandi umhverfi vel fyrir sér. Því næst læra börnin lítið lag sem fjallar um Xiao Sheng og sem er notað sem hluti af tilheyrandi leik, en hann má sjá á myndskeiðinu.

Söngtexti

Drengur að dreka varð,
töfraperlan aftur hvarf.
Veistu hvar hún leynist?
Veistu hvar hún er?

Laglínuna er hægt er heyra í myndskeiðinu hér að ofan. Það er kínverska lagið "Shi shang zhi you ma ma hao" sem er að finna á disknum Úr vísnabók heimsins. Hér er það á Spotify. Því miður eru samt ekki til upptökur af því þegar börnin syngja lagið.

Myndskeið

Ævintýri

Einu sinni var kínverskur strákur sem hét Xiao Sheng. Hann bjó í litlu koti með mömmu sinni. Pabbi hans var dáinn og þau voru mjög fátæk. Til að hafa í sig og á söfnuðu þau blómum og fræjum og seldu þau.

Eitt árið var mjög slæmur þurrkatími í þorpinu hjá þeim. Næstum allar plönturnar dóu vegna þess að þær vantaði vatn. Xiao Sheng og mamma hans gátu ekki fundið nein fræ eða blóm til að selja. En þá var það einn daginn að Xiao Sheng fann stað þar sem allt var grænt og í fullum blóma þrátt fyrir þurrkinn. Hann varð náttúrulega mjög glaður og safnaði mörgum plöntum þar næstu daga.

Einn daginn rakst hann á perlu í jörðinni á græna staðnum. Hann tók hana með heim til að gleðja móður sína.

Þau geymdu perluna í gömlum potti sem þau notuðu til að geyma í hrísgrjón. Þau áttu bara fáein hrísgrjón eftir þegar þau settu perluna í hann, en daginn eftir þegar þau opnuðu hann aftur var hann orðinn fullur af hrísgrjónum! Þetta var töfraperla!

Næstu daga var sannkölluð veisla í þorpinu. Xiao Sheng og mamma hans leyfðu nefnilega öllum að njóta góðs af perlunni og töframætti hennar.

En þá reyndu tveir bófar að stela perlunni. Til að koma í veg fyrir að þeir næðu henni, þurfti Xiao Sheng að gleypa hana.

Perlan gerði hann mjög þyrstan. Hann hljóp niður að fljótinu og byrjaði að drekka. Því meira sem hann drakk, þeim mun stærri varð hann. Og hann byrjaði líka að breytast - Xiao Sheng breyttist í risastóran dreka!

Sumir drekar blása frá sér eldi, en þessi dreki blés frá sér rigningarskýjum! Eftir margra mánaða þurrk byrjaði loksins að rigna í þorpinu hans Xiao Shengs. Drekinn flaug hins vegar í burt á vit ævintýranna með móður sína á bakinu...

Leikurinn

Leikurinn fer þannig fram að eitt barnanna fær stóra ”perlu” og á að fela hana í lófa sér. Dreki, sem kennarinn stjórnar, kemur fljúgandi og spyr börnin eitt af öðru (hvíslar), ”Ert þú með töfraperluna mína?” Þegar drekinn finnur rétta barnið (og þar með perluna) flýgur drekinn í burtu og nýtt barn fær perluna til varðveislu.

Hugmynd: Birte Harksen. Baldur A. Kristinsson endursagði og gerði söngtexta, nóv 2006.

Síðast breytt
Síða stofnuð