Jóga-möntrur

Jóga fyrir börn er skemmtileg og gefandi viðbót við leikskólastarfið. Eitt af því sem einfalt er að byrja á að kynna fyrir börnunum eru möntrurnar (orðið MANTRA er myndað úr MAN sem þýðir höfuð og hjarta og TRA sem þýðir vernda og lækna.). Mantra er róleg tónlist með einföldum texta sem er endurtekinn með einföldum handahreyfingum. Hér er upptaka á möntru sem var kennd á námskeiðinu Krakkajóga á vegum Lotus jógasetursins. Meira um það neðar á síðunni.

Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir (Imma) lýsir hér nánar námskeiðinu og kemur með tillögu að íslenskum texta við möntruna sem er á myndskeiðinu:

Helgina 29.-31. maí fóru þrír starfsmenn af Heilsuleikskólanum Urðarhóli á námskeið um jóga með börnum. Kennarinn var Gurudass Kaur og kom frá Bandaríkjunum. Þetta er kona sem er menntaður kennari og er jógakennari og tónlistamaður að auki. Gurudass hefur unnið með jóga fyrir börn árum saman, hún hafði því margt skemmtilegt fram að færa svo sem fjölbreytta leiki, æfingar og möntrur. Þátttakan var mjög góð og helgin varð hin ánægjulegasta. Þegar komið var aftur í leikskólann vorum við uppnumdar af öllu sem við höfðum lært og upplifað og byrjuðuð þegar að nýta okkur það öllum til ánægju og sjáum því fram á fjölbreytta og skemmtilega möguleika á að nota jóga í framtíðinni á Urðarhóli.

Mantran sem hér er lýst er af geisladiski með kennsluefni sem við fengum á námskeiðinu. Börnin voru mjög áhugasöm og fljót að ná hreyfingunum og fóru fljótlega af sjálfsdáðum að syngja með.Það sem kom okkur mest á óvart var áhrifin sem möntrurnar höfðu á börnin. Yfir þau færðist ró og gleði sem framkallaði margar yndislegar samverustundir.

Ek Ong Kaar

Ek Ong Kaar 
Sat Naam 
Siri Wah-Hay Guroo

Lagið á Spotify

Textinn í möntrunni er á Punjab-máli. Hún er frá Indlandi og tengist trú Sikha fremur en hindúisma. Helsta bæn Sikha, Mul mantran, byrjar einmitt með "Ek ong kaar sat nam".

Á ensku þýðir mantran: "I am one with the One Creator of the creation. That is my true identity and when I realize this I am in great bliss."

Íslenskur texti

Okkur langaði til að prófa líka að gera texta á íslensku sem væri endurtekinn og róandi og innihéldi einnig merkingu í samræmi við hreyfingarnar fyrir börnin. Að þýða beint var óhugsandi, textinn varð að vera einfaldur og merkingin eins skýr og mögulegt væri. Niðurstaðan varð þessi:

Sjá þitt
innra ljós
og sjáðu okkur,

sjáðu mig, ég sé þig,
við erum eitt

Í "sjáðu mig, ég sé sig" gerir maður "kíki" með höndunum og lítur í kringum sig.

Til að kynna ykkur Gurudass Kaur getið þið farið á vefsíðuna hennar.

Meira um jóga hér á vefnum

Síðast breytt
Síða stofnuð