Hér er dæmi um að tengja vísu eða þulu við sköpun og leik þar sem börnin búa til grænmetislistaverk í frostinu. Ég kalla þuluna mína Klakagaldur sem vísar til vinnu minnar í kringum Stafagaldur. Þulan styrkir líka að einhverju leyti orðaforðann í tengslum við frost og kulda. Börnin voru fljót að læra hana og voru töluvert upptekin af rímorðunum. Það eru þrjú myndskeið hér fyrir neðan. Þau eru öll svo yndisleg að ég gat alls ekki gert upp á milli þeirra!
Árið 2024 byrjaði með mikilli kuldatíð og því var upplagt að nota frostið til að búa til íslistaverk þar sem við tengdum saman sköpun og vísindi. Börnin á Aðalþingi unnu saman tvö og tvö svo að samvinnan og samtalið væru í fyrirrúmi. Efniviðurinn var grænmeti og ávextir sem við fengum í eldhúsinu og við notuðum tækifærið til að skoða og rannsaka í leiðinni.
Til að draga ferlið og hugmyndina saman í meiri heild bjó ég til eftirfarandi galdraþulu. Hér er líka hægt að hlusta á upptöku af hópnum að fara með hana saman.
Gerum saman klakagaldur,
þó að hann sé frekar kaldur.
Ekki sjóða, ekki baka.
Hvernig breytist vatn í klaka?
Grænmeti við skulum raða
beint á disk - en ekki hlaða.
Broskarl myndast, rosa gaman,
vinnum listaverkið saman.
Út í kuldann - svo að bíða,
vonandi fer ekki að þíða.
Klakinn á að vera kaldur,
inni bráðnar klakagaldur.
Höf.: Birte Harksen, jan. 2024
Ferlið
Við byrjuðum á að fara í eldhúsið og fengum þar ýmiss konar grænmeti og ávexti sem við skárum svo niður og röðuðum fallega á diska og í skálar. Börnin komu svo tvö og tvö saman og völdu sér þann efnivið sem þeim leist best á. Saman röðuðu þau grænmetinu sínu á stórt plastlok. Þau höfðu ekki neina fyrirmynd að miða við en það var athyglisvert að sjá að mörg þeirra ákváðu að búa til andlit.
Því næst helltu börnin vatni á lokin og þau voru sett út í frostið. Næsta dag var vatnið frosið og - hókus pókus - listaverkin voru orðin til og hægt að hengja þau upp á trén. Það var mjög flott, en nóttina eftir kom því miður töluvert mikill snjór og vindur þannig að þau slógust utan í tréð og skemmdust svolítið. Sem betur fer var auðvelt að laga klakalistaverkin með því að leggja þau aftur á diskinn og hella meira vatni við.
Myndskeið 1
Myndskeið 2
Nokkrum vikum síðar var komið að hinum helmingi deildarinnar að gera klakagaldur. Að þessu sinni fengum við úrgangsgrænmeti úr eldhúsinu og urðu listaverkin ekki síður falleg og skemmtileg. Það var ekki eins mikið frost og hjá fyrri hópnum en samt nóg til að þau frusu um nóttina og hægt var að hengja þau upp næsta morgun. En svo vildi svo til að sólin kom fram og jafnvel þótt hitastigið væri enn við frostmark var það nóg til að listaverkin byrjuðu að bráðna - eða þíða eins og segir í þulunni
Myndskeið 3
Þriggja ára börnin á Spóaþingi gerðu líka klakalistaverk og höfðu mjög gaman af. Þar fékk hvert barn að gera sitt eigið verk sem leiddi til þess að þau urðu mjög fjölbreytt. Það er samt athyglisvert að ólíkt eldri börnunum gerðu þriggja ára börnin ekki andlit.