Litli flórgoðinn

Kennarar og börn á Spóaþingi komu heim úr göngutúr alveg uppnumin yfir því að hafa séð flórgoða enda er hann frekar sjaldgæfur varpfugl á Íslandi. "Og hann segir ekki Bra bra bra," tilkynntu börnin, "meira svona Gví gví gví". Áhuginn var rosalegur og það kom ekki annað til greina en að reyna að grípa tækifærið. Þar sem okkur vantaði skemmtilegt lag um flórgoða kom upp hugmynd um að breyta laginu um Litlu hvítu öndina og láta það fjalla um flórgoða í staðinn.

Þetta er æsispennandi lag sem byrjar rólega með því að flórgoðinn syndir á tjörninni og glefsar í vatnaliljublað. Síðan bætist við froskur og svo bjalla en þá byrjar dramað: Lítil rauð slanga syndir um tjörnina. Hún hræðir flórgoða og frosk í burtu og étur svo bjölluna upp til agna. Nú er enginn eftir á tjörninni og við byrjum öll að gráta með ekkasogum af því að sagan er svo sorgleg.

Litli flórgoðinn

Það var [C] lítill flórgoði
að synda' um tjörnina' [G7] alla
Lítill flórgoði
- hvað var hann að [C] bralla?
Hann [F] synti' um og glefsaði'
í [C] liljublað
Hann [D7] kvakaði hátt og sagði:
[G7] „Veistu hvað?!
Ég er [C] lítill flórgoði
að synda' um tjörnina' [G7] alla!
Gví gví [C] gví.“

Það var lítill, grænn froskur
Lítill, grænn froskur
- hvað var hann að bralla?!
Hann hopppað' og settist
á liljublað,
hann kvakaði hátt og sagði: 
„Veistu hvað,
ég er  lítill, grænn froskur,
að hoppa' um tjörnina' alla.
Ribbit-ribbit-ribbit.“

Það var lítil, svört bjalla
að fljúga' um tjörnina' alla.
Lítil, svört bjalla.
- hvað var hún að bralla?!
Hún heimsótti froskinn
á liljublað,
hún suðaði hátt og sagði
„Veistu hvað,
ég er lítil, svört bjalla
að fljúga' um tjörnina' alla.
Bzzt-bzzt-bzzt.“

Það var lítil rauð, slanga
að synda' um tjörnina' alla.
Lítil, rauð slanga
- hvað var hún að bralla?!
Hún hræddi flórgoða og frosk
af stað,
svo bjölluna hún át og sagði:
„Veistu hvað,
Ég er lítil, södd slanga'
að synda' um tjörnina' alla.
Hriss-hriss-hriss.“

Nú er enginn eftir
á ferð um tjörnina' alla.
Enginn eftir
og enginn neitt að bralla.
Bara eitt autt, lítið liljublað
Engin önd og enginn froskur - 
leitt mér þykir það!
Það er enginn eftir
á ferð um tjörnina' alla
Bú-hú-hú!

Lag: Bernard Zaritzky and Walt Barrows
Þýðing: Birte Harksen og Baldur Kristinsson

Myndskeið

Í myndskeiðinu syng ég lagið með elstu börnunum á Spóaþingi (tveir hópar). Það voru mjög skemmtilegar stundir þar sem við fórum í framhaldinu að leika söguþráðinn í laginu. Börnin völdu sér hlutverk með því að setja stafinn sinn hjá réttri mynd á töflunni og síðan hófst leikurinn.

Myndir

Ég bjó til þessar myndir í Canva til að sýna atburðarásina í laginu. Síðan gerðum við flettubók úr myndunum. Myndirnar til útprentunar (PDF)

Síðast breytt
Síða stofnuð