Osebo og tromman hans

Bókin um hlébarðann Osebo og stóru trommuna hans gefur upplagt tækifæri til að vinna með rytma og áslátt. Ég fékk þá hugmynd að hvert dýr gæti verið með sitt rytmastef, sem bæði væri hægt að söngla og spila á trommur og önnur ásláttarhljóðfæri. Við Imma notuðum líka bókina á annan hátt í Leik að bókum, þar sem mikil áhersla var lögð á að búa til grímur og leika söguna.

Söguþráður

Bók eftir Jessica Sauhami

Sagan um Osebo er þjóðsaga frá Vestur-Afríku og fjallar um hlébarðann Osebo sem er hávær og montinn. Einn daginn bjó Osebo til risastóra trommu sem heyrðist hátt í og öll dýrin í skóginum vildu eiga hana. Jafnvel himnaguðinn Nyame langaði í trommuna en Osebo harðneitaði að láta hana af hendi. Hann vildi ekki einu sinni leyfa himnaguðinum að prófa.

Himnaguðinn reiddist og tilkynnti að hvert það dýr sem færði honum trommuna fengi mikil verðlaun. Kyrkislangan Onini, fíllinn Esono og apinn Asroboa reyndu að ná trommunni en Osebo hrakti þau burt. Loks kom skjaldbakan Achi-cheri sem var mjög hægfara og hafði enga skel. Hin dýrin hlógu að henni en einmitt henni tókst með kænsku að lokka Osebo inn í trommuna og færa himnaguðinum. Í verðlaun valdi Achi-cheri harða skel sér til verndar.

Bókin á Amazon

Rytmastef

Tillögur mínar að rytmastefum dýranna sjást á myndinni hér að neðan, og einnig er hægt að hlusta á þau með því að að spila hljóðskrána Osebo.m4a.

Hvert dýr hefur sitt stef

Á hljóðskránni má fyrst heyra tvær spilanir á stefinu hans Osebos ("O-sebo, O-sebo, ég er O-sebo"), síðan tvær af fílnum Esono ("Fíll-inn E-so-no"), þá tvær af kyrkislöngunni Onini ("O-ni-ni, O-ni-ni, O-ninní, O-ni-ni"), tvær af apanum Asroboa ("As-ro-bo-a með grí-muna, já!") og loks af skjaldbökunni Achicheri, ("A-chi-cheri, A-chi-cheri, A-chi-cheri, A-chi-cheri"). Að lokum heyrast öll stefin saman.

Þegar maður vinnur með þessi stef með börnunum er gott að fá þau til að hjálpa við að velja réttu hljóðfærin fyrir hvert stef/dýr. Hópurinn sem sést leika söguna í myndskeiðinu hér að neðan vann aðallega með trommurytmann hans Osebos, en hin stefin voru söngluð. Til að fjölga hlutverkum bættum við líka við nokkrum auka dýrum - bæði ljóni, froski og nashyrningi, en það er líka eitthvað sem hægt er að gera í samráði við börnin.

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð