Rauðhetta litla

Þetta Rauðhettu-lag lærði ég fyrir mögum árum af leikskólakennara sem ég var að vinna með. Ég veit ekki neitt um hvaðan lagið kemur eða hver samdi textann en mér þætti mjög gaman að heyra meira ef einhver skyldi vera með upplýsingar um það. Hér er hugmynd um hvernig hægt er að nota lagið í sambandi við læsistengdan leik.

Læsisvinna

Á myndinni hér fyrir neðan er fjögurra ára barn að para saman textabrot úr laginu. Fyrsta línan úr hverju erindi er prentuð bæði á gulan og hvítan pappír og það krefst einbeitingar að átta sér á hvaða texta er verið að syngja og hvaða spjöld passa saman. T.d. að sjá mun á "Rauðhetta litla" og "Rauðhetta kemur".

Skemmtilegt er að gera smá feluleik í leiðinni með því að fela á ýmsum stöðum gulu "renningana" og fá börnin til að leita að næsta "erindi" áður en við syngjum það.

Rauðhetta litla

  A
:,: Rauðhetta litla :,:
A          E
Rauðhetta litla, labbar nú af stað. 
A    
Hún fer í gegnum grænan skóg 
D
og gott í poka hefur nóg. 
A          A    E   A
Rauðhetta litla labbar nú af stað.

:,: Úlfurinn hleypur :,: 
Úlfurinn hleypur inn í grænan skóg,
en Rauðhetta litla þar inni er 
alveg hreint hún gleymir sér. 
Úlfurinn hleypur inn í grænan skóg.

:,: Amma mín góða :,: 
Amma mín góða, inn í grænum skóg, 
ég kem, ég kem, ég kem til þín 
með kökur og blómin fín. 
Amma mín góða inn í grænum skóg.

:,: Þá fer nú illa :,: 
Þá fer nú illa inn í grænum skóg. 
Ömmu gleypir úlfurinn 
upp í rúmið skreið þrjóturinn. 
Þá fór nú illa, inn í grænum skóg.

:,: Rauðhetta kemur :,: 
Rauðhetta kemur í kot í grænum skóg. 
Ætlar að hitta ömmuna 
en úlfurinn líka gleypti hana. 
Rauðhetta kemur í kot í grænum skóg.

:,: Úlfurinn sefur :,: 
úlfurinn sefur inn í grænum skóg. 
En veiðimaður var þar hjá 
með voða mikinn hníf að sjá. 
Úlfurinn sefur inn í grænum skóg.

:,: Öllu var bjargað :,: 
Öllu var bjargað inn í grænaum skóg. 
Hann bjó til gat á bumbuna 
þar ultu út amma og Rauðhetta. 
Öllu var bjargað, inn í grænum skóg.

:,: Ósköp var gaman :,: 
Ósköp var gaman, inn í grænum skóg. 
Nú opnuðu þær körfuna 
amma góða og Rauðhetta. 
Ósköp var gaman inn í grænum skóg.

Myndskeið

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan er hægt að hlusta á laglínuna og einnig fá smá tilfinningu fyrir hvernig ég notaði textaspjöldin í "feluleik" í samverustundinni. Þar má líka sjá krúttlegar upptökur af krökkum sem leika Rauðhettusöguna.

Síðast breytt
Síða stofnuð