Þumalfingur, þumalfingur

Þetta lag þekkja öll lítil börn og það er alltaf jafn vinsælt. Hérna eru tvær hugmyndir að því hvernig hægt er að skapa smá fjölbreytni í kringum það fyrir 1-3 ára börn.

1. Fingrabrúður

Ég er með dós sem ég geymi litlar fingrabrúður af dýrum í. Fyrir hvert vers setjum við dýr á viðkomandi fingur. Ég byrja t.d. með því að segja: "Hvað ætli sé hérna í dósinni? Eigum við að prófa að hlusta? Hvað er það sem ég heyri? Gaggala-gú! Hvaða dýr er nú þetta?" Börnin hrópa náttúrulega: "Hani!" Þá set ég hanann á þumalfingurinn, við felum höndunum fyrir aftan bak og syngjum svo fyrsta erindið saman. Síðan held ég áfram: "Ætli það sé eitthvað fleira í dósinni? Hvað er það sem ég heyri? Muuh! ..." o.s.frv.

2. Hringir

Ég gef hverju barni einn skærlitan gorm úr plasti sem hægt er að nota sem hring (á dönsku eru þeir kallaðir "hønseringe"). Þegar viðeigandi erindi er sungið eiga börnin þá að flytja hringinn sinn á viðeigandi fingur. Muna að fylgjast vel með yngri börnunum - sum þeirra eiga það til at setja hluti upp í sig.

Síðast breytt
Síða stofnuð