Hljóðfærastund

Hljóðfærastundir á litlu deild eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Stundirnar eru alveg frjálsar, og börnin koma og fara eins og þau vilja. Það er alltaf jafn yndislegt að sjá hvernig þau rannsaka hljóðfærin, þreifa sig áfram og uppgötva þau á sinn eigin hátt. Ég er búin að fylla litla ferðatösku af einföldum hljóðfærum og hljóðgjöfum. Ég sjálf er oftast með gítarinn minn til að mynda bakgrunns-stemmningu, og stundum nota ég tækifærið til að spila lög sem við erum að æfa í hvert sinn.

Það eru engar reglur um hvað börnin mega gera með hljóðfærin (náttúrulega burtséð frá að það má ekki meiða og skemma), en stundum sýnum við börnunum hvernig hægt er að nota þau til að fá besta hljóðið. Það er ein ástæða þess að mikilvægt er að ég sé með annan starfsmann með mér í stundinni. Önnur ástæða er að það þarf stundum að hvetja börnin til að þora að kasta sér út í eitthvað nýtt. Og svo þarf auðvitað stundum að greiða úr ágreiningi milli barnanna.

Myndskeið frá Stjörnuhóli og Skeljahóli

Mér finnst best að halda svona stundir að morgni til, Þá er líklegra að stundin verði indæl og róleg. Ennig sýnir reynslan að hljóðfærastundir af þessu tagi virka best með yngri börnum, þar sem þau eldri eru ekki eins rannsakandi og það myndast oft of mikill hávaði.

Alls konar hljóðgjafar og ódýr hljóðfæri - oftar en ekki keypt í Góða Hirðinum

Gaman að vera með hljóðfæri sem hvetja til hlutverkaleiks

Kosturinn við óhefðbundna hljóðgjafa, eins og til dæmis froskana á myndinni hér fyrir ofan, er að þeir koma meira á óvart og höfða meira til ímyndunaraflsins.

Börnin eru mjög flink að ganga frá eftir stundina

Svipmyndir úr hljóðfærastundum

Síðast breytt
Síða stofnuð