Ég fór í dýragarð í gær

Þetta einfalda lag eftir Soffíu Vagnsdóttur er alger snilld og gaman að nota það með leikskólabörnum á öllum aldri. Þar að auki er hægt að nota það til að styrkja hljóðkerfisvitundina á margan hátt (upphafshljóð, atkvæðafjölda og fleira) eða til að kynna orðaforða og hugtök (eins og t.d. liti eða dýrategundir), sérstaklega ef maður leggur smá vinnu í að gera lagið áþreifanlegt fyrir börnunum.

Eins og sést af myndinni nota ég bútana úr trépúsluspili með mynd úr dýragarði. Ég bjó til "búr" í mismunandi litum úr lituðu kartoni og skrifaði tölustafi í hvert búr (og sýni töluna líka með deplum eins og á teningi). Reglan er sú, að hvert dýr eigi heima í því búri sem hefur viðkomandi fjölda atkvæða, og ég teiknaði líka útlínur dýrsins í búrið til frekari stuðnings.

Eitt barn í einu dregur dýr upp úr flauelspoka og kemur því fyrir á viðeigandi stað. Þegar það er tekið upp syngjum við lagið, og þegar það er komið á sinn stað klöppum við atkvæðafjöldann, og segjum nafnið á dýrinu um leið.

Þetta má auðvitað útfæra á ýmsan hátt eftir því hvers konar leikmuni eða myndir maður er með. Hér að neðan sést t.d. mynd af annarri útfærslu þar sem ég notaði dýramyndir úr risastóru gólfpúsluspili.

Ég fór í dýragarð í gær

Ég fór í dýragarð í gær
og gettu hvað ég sá.
Ég fór í dýragarð í gær 
og gettu hvað ég sá.

[E.t.v. Hvað sást þú?
Barn: "Ég sá fíl" ]

F-F-F-F
Fílinn þar ég sá!!

Höfundur: Soffía Vagnsdóttir

Athugið að F-F-F hér að ofan er ekki nafn bókstafsins heldur hljóðið. Upplagt er að nota Lubbatáknin með ef börnin þekkja þau.

Myndskeið

Á þessu myndskeiði sést lítið brot úr tveimur samverustundum á Aðalþingi vorið 2023.

Hér er einnig eldra myndskeið af Urðarhóli frá 2009:

Síðast breytt
Síða stofnuð