Verum vinir (Hallelúja)

Þetta lag hittir okkur alveg í hjartaræturnar! Textann um vináttu sem gerir okkur heil og sterk samdi Jóhanna Gísladóttir, grunnskólakennari á Seyðisfirði, en lagið kom hingað suður í för með öðrum frábærum kennara, Hjördísi Hrund Ingvadóttur. Það er alveg í uppáhaldi hjá okkur og er orðið ómissandi á útskriftarhátíð elstu barna skólans.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá tvær eftirminnilegar stundir frá því nú í haust.

Önnur er skemmtileg heimsókn Rannveigar Jónu Hallsdóttur frá leikskólanum Austurkór sem færði okkur dásmlega gjöf. Hún hafði heklað litlar peysur í alls konar litum fyrir Blæ-bangsana okkar og fengu öll börnin að velja eina. Börnin þökkuðu auðvitað Rannveigu með því að syngja fyrir hana Verum vinir!

Hin stundin var á fallegum haustdegi þegar Hjördís Hrund fór með hóp barna í fjöruferð og lét þau fara í jafnvægisæfingu í flæðarmálinu á meðan þau sungu Vinalagið. Það var greinilegt að Hjördís æfði jafnvægið mest af öllum :)

Verum vinir

Svo allir séu glaðir hér
og brosi kátir móti þér
og líði vel í skólanum okkur
er nauðsynlegt eiga vin,
svo leiður sé hér alls enginn
né einmanna, við skulum vera vinir
Verum vinir, verum vinir.
Verum vinir, alltaf vii-ii-nir

Við skulum alltaf hjálpast að
syngja, spjalla, skrifa á blað
vinna saman öll í þessum skóla
Við skiljum engan útundan,
en tölum öll við félagann,
því mikilvægast er að vera vinir
Verum vinir, verum vinir.
Verum vinir, alltaf vii-ii-nir

Við ætlum ekki að særa neinn
en vera heldur vinur hreinn
og glöð og góð og hjálpsöm við hvert annað
Þá verðum við svo heil og sterk,
við erum öll hreint listaverk
og sérstaklega ef við erum vinir
Verum vinir, verum vinir.
Verum vinir, alltaf vii-ii-nir

Lag Hallelúja
Texti: Jóhanna Gísladóttir

Lagið til útprentunar
Lagið með gítargripum

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð