Æfintýri í Mararþaraborg

Það er svo gaman að endurvekja yndislegar tónlistarminningar úr bernsku manns og fyrir mörg okkar eru þær tengdar gömlum hljómplötum sem jafnvel ekki lengur eru fáanlegar. Sem betur fer fæst þessi plata Helga Skúlasonar, Æfintýri í Mararþaraborg, samt á Spotify

Imma segir frá:

Í vor hafði ég, mér til mikillar ánægju, tækifæri til að draga fram gamla söngvasögu. Þetta var sagan "Ævintýri í Mararþaraborg" eftir Ingebrigt Davik í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk, sem ég átti á plötu þegar ég var lítil og hlustaði mikið á. Við vorum nefnilega með krabbaþema á deildinni og vantaði einmitt skemmtilega krabbasögu. Ég átti ennþá plötuna og hafði nýlega klófest bókina (sem var prentuð 1974).

Ég las söguna sem framhaldssögu og söng lögin. Upphaflega ætlaði ég nú ekki að syngja lögin en það kom ekki annað til greina hjá krökkunum og reyndist það líka mjög skemmtileg viðbót við söguna og það var gaman að syngja í karakter. (Þá þarf maður heldur ekkert að hafa áhyggjur af gæðum söngsins ;). Ég kenndi þeim síðan fyrstu erindin í tveimur lögum sem fjölluðu um Krabba Kubb en hann er ógnvætturinn í sögunni.

Sagan fjallar um flatfiskafjölskyldu, Frakk litla sem lendir í klónum á Krabba Kubb vegna þess að hann er svo frakkur og forvitinn og mömmu Flöt og Fim litla bróður Frakks sem þjóta um þaraskóga og ýmis hættusvæði í leit að Frakk. Sagan er ægispennandi og krakkarnir féllu fyrir henni þó að lítið væri um myndir.

Það gæti þó verið skemmtilegt að gera myndir eða segja söguna sem töflusögu. Mun ég eflaust nýta mér það seinna sérstaklega þar sem Krabbi Kubbur þ.e risakrabbi sem deildin bjó til er nú búinn á fá heiðursess í matsalnum á leikskólanum okkar, Urðarhóli og verður því hjá okkur um ókomna tíð. Mér finnst það sérlega skemmtilegt að hafa hann þar því við höfum svo oft sungið um Krabba Kubb eftir matinn til að enda máltíðina með stæl.

Krabbi Kubbur (Lag nr. 8)

Ég heiti Krabbi Kubbur,
og kjabba út á hlið
á tvennum fjórum fótum
um flúð og klettarið.
Og bognar klær og beittar
ég ber á hverri tá.
Tvo arma hef ég einnig,
sem allvel klipið fá.

Mig bústað brestur eigi,
ég bý í holum stein.
Og söl er yfirsæng mín,
en svæfill ýsubein.
Og veggi skrýða skeljar
og skrautleg ígulker.
En skel ein, svört af sandi,
er suðupottur hér.

Ég uni mér hér inni,
því yndi hef ég nóg.
Og fer í göngu-ferðir
um fagran þaraskóg.
Og komi ég í kvöldmat
hjá kunningjum, ég set
ó-boðinn mig við borðið 
og besta matinn ét.

Ég hetju veit mig vera.
Á veiðar oft ég fer.
Og bakvið brúnan runna
ég bráðar leita mér.
Og gómsæt, grunlaus smádýr,
sem ganga þarna hjá,
þau fá á klóm að kenna
og kjafti,er opna má.

Lag og texti: Helgi Skúlason

Lagið á Spotify

Síðast breytt
Síða stofnuð