Hérinn og skjaldbakan

Þessi útgáfa af hinni sígildu dæmisögu um hérann og skjaldbökuna sem fóru í kapphlaup er byggð á bókinni Three Singing Pigs: Making Music with Traditional Stories eftir Kaye Umansky. Þýðing/breyting: Birte Harksen og Baldur Kristinsson.

Best er að segja söguna án þess að lesa hana upp. Það skiptir ekki svo miklu máli hvort maður breytir einhvers staðar orðalagi. Það er gott að hafa skjaldböku og héra með, en það er ekki nauðsynlegt. Byrjið á því að tala um að annað dýrið hreyfir sig hægt og hitt hratt og spyrjið börnin hvort þeira gerir hvað - og kannski jafnvel hvort þeirra myndi vinna í kapphlaupi. Því næst kennir maður börnunum lögin tvö og leyfir þeim að æfa sig í að klappa taktinn. Ef færi er á því er gott að einhver fullorðinn slái taktinn á trommu eða því um líkt til að auðvelda börnunum að fylgja með.

Dæmisagan um hérann og skjaldbökuna

Vinur okkar, skjaldbakan, kom gangandi hæglátlega eftir veginum.

(SLÁIÐ Á LÆR Í HÆGUM TAKTI)

Skjaldbakan tuggði fíflablað og söng með sjálfri sér (lag: Upp, upp, upp á fjall):

Ég fer svo
hægt og rólega,
því skjaldbaka ég er.
Ég þarf ekki að flýta mér, 
aldrei hratt ég fer.

Ó, já, hún labbaði hægt og rólega, alveg án þess að flýta sér. En heyrið þið þetta? (Klappa hraðan takt á lær). Hver kemur núna hlaupandi?

Allt í einu kom lítill og léttur héri þjótandi fram hjá. Hann var á miklum hraða.

(SLÁIÐ Á LÆR Í HRÖÐUM TAKTI)

Og hann var að syngja allt annað lag sem hljómaði svona (lag: Út um mó, inn í skóg)

Flýta sér, flýta sér,
ég þarf svo að flýta mér!
Ekki stoppa til að tína, tína ber,
hlaupa hratt og flýta sér!

En skjaldbakan tók varla eftir honum. Hún hélt bara áfram að narta í fíflablöð og syngja lagið sitt:

(SLÁ Á LÆR OG SYNGJA SKJALDBÖKULAGIÐ)

Hérinn skrensaði og starði á skjaldbökuna. ”Þú hefur sko rétt fyrir þér. Þú ert mjög hægfara. Ekki eins og ég. Ég er kallaður Snöggur af því að ég er svo fljótur. Ég hleyp hraðast af öllum í skóginum!” Hérinn var ótrúlega montinn.

Skjaldbakan starði til baka og tuggði laufið sitt. ”Nú, jæja,” sagði hún, ”ertu svona fljótur? Að hugsa sér! Hmm... En hvað segirðu þá um að fara í kapp? Gegnum skóginn, framhjá tjörninni og endum svo við gamla trjádrumbinn.”

”Samþykkt!” sagði hérinn og flissaði. ”1-2-3 byrja!” Og svo var hann hlaupinn af stað.

(SLÁIÐ Á LÆR OG SYNGIÐ HÉRALAGIÐ)

Á svipstundu var hérinn kominn langt fram úr. Hann hugsaði með sjálfum sér: ”Hah, ég er svo langt á undan þessari heimsku skjaldböku, að ég hef alveg tíma til að tína ber.” Og hann sá girnilegan berjarunna og fékk sér gómsætan berjabita. Síðan lagðist hann undir tré til að hvíla sig aðeins, en var innan stundar steinsofnaður.

Á meðan hélt skjaldbakan ferð sinni rólega áfram. Hún tuggði laufið sitt og söng:

(SLÁIÐ Á LÆR OG SYNGIÐ SKJALDBÖKULAGIÐ)

Skjaldbakan sá hérann sofandi undir trénu. Hún hristi höfuðið og hélt rólega áfram. Skref fyrir skref nálgaðist hún markið.

Þegar hérinn vaknaði, var hann viss um að hann væri ennþá á undan skjaldbökunni. Hann hljóp af stað til að klára kapphlaupið. Hann ætlaði að flýta sér að ná í mark.

(SLÁ Á LÆR OG SYNGJA HÉRALAGIÐ)

En viti menn! Þegar hann kom framhjá tjörninni sá hann sér skelfingar að skjaldbakan var alveg að koma í mark! Hann hraðaði enn meira á sér:

(SLÁ Á LÆR OG SYNGJA HÉRALAGIÐ – ENN HRAÐAR)

En það var til einskis – skjaldbakan varð fyrst í mark og vann kapphlaupið.

Þegar hérinn kom svo másandi og blásandi að gamla trjádrumbnum, sagði skjaldbakan rólega við hann: ”Mundu svo að maður verður ekki alltaf fljótur af því að flýta sér!”

Hérinn skammaðist sín fyrir að hafa tapað kapphlaupinu og lofaði sjálfum sér að vera ekki eins montinn í framtíðinni.

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð