Alli, Palli og Erlingur

Þetta stórskemmtilega lag varð einkennislagið okkar í haust. Deildin okkar, Sjávarhóll, lenti í sannkölluðu ævintýri þar sem við vegna tímabundinna aðstæðna þurftum að dvelja í Siglingaklúbbnum Ými ("Sigló"), og satt að segja voru þetta dásamlegar sjö vikur sem við gleymum seint. Börnin smíðuðu báta, veiddu krabba og marglyttur, löbbuðu alla leið á vatnssýningu í Perlunni, en það sem stendur alveg upp úr var þegar Guðjón "afi" bauð okkur í bátsferð þar sem allir krakkarnir fengu að sitja undir stýri.

Samræður út frá söngtexta

Lagið um strákana þrjá er dæmi um lag þar sem upplagt er að pæla í sögunni og láta krakkana sjá fyrir sér hvað er að gerast með því að koma með spurningar til íhugunar og fá samræður í gang. Spurningarnar geta verið af ýmsu tagi: (1) Varðandi innihald og skilning: Hvað eru Alli, Palli og Erlingur að gera? Úr hverju er báturinn þeirra? Hvert ætla þeir að sigla? Eru þeir sammála? (2) Tengingar við eigin reynslu og þekkingu barnana: Hafið þið siglt á bát? Hafið þið komið til Ameríku, Portúgals, Grænlands? Ef þið ætluðuð að búa til bát úr hverju gætuð þið gert hann? (3) Eða spinna áfram út frá textanum og nota ímyndunaraflið: Hvað gerist næst? Finna þeir hattinn aftur? Komast þeir alla leið til Grænlands?

Alli, Palli og Erlingur

Alli, Palli og Erlingur, þeir ætla að fara að sigla.
Vantar vænan bát, en vita afbragðs ráð.
þeir fundu gamalt þvottafat, sem farið var að mygla.
Sigla út á sjó og syngja hæ hæ hó.
Seglið var úr afarstórum undirkjól.
Mastrið, það var skófluskaft og skútan lak og valt.
Og hæ og hó, og hæ og hó og hí,
en skítt með það, við skulum komast fyrir því.

Alli vildi ólmur til Ameríku fara,
en Palli sagði: "Portúgal er prýðis land".
"Nei, ertu frá þér Palli, nú ætlum við að spara.
Stýrum beint og stefnum upp á Grænlandssand".
"Ertu frá þér Erlingur, þú ert að fara í kaf.
Hatturinn þinn fýkur af og feykist út á haf".
Og hæ og hó, og hæ og hó og hí,
en skítt með það, við skulum komast fyrir því.

Lag og texti: Höfundur óþekktur
Flytjandi: Svanhildur Jakobsdóttir á plötunni Svanhildur syngur fyrir börnin, 1974
Prentið út lagið með gítargripum

Myndskeið úr Sigló

Með Guðjóni í bátsferð

Það var ótrúlega gaman að fára í bátsferð með Guðjóni á fallegum haustdegi í rjómalogni og blíðu. Bæði börn og kennarar voru mjög spennt og öll fengum við að stýra bátnum. Það var siglt næstum því alla leiðina í Nauthólsvík.

650x

Bátasmiðjan

Börnin voru hæstánægð með bátana sem þau smíðuðu í bátasmiðjunni. Bátarnir voru málaðir og skreyttir eftir öllum listarinnar reglum.

Vatnssýning í Perlunni

Við löbbuðum allan Fossvoginn, frá Naustavör og í Perluna til að sjá mjög áhugaverða sýningu um lífið í vötnunum. Fengum okkur grillpylsur í Nauthólsvík og löbbuðum síðan aftur heim í Sigló. Börnin voru alveg ótrúlega duleg.

Síðast breytt
Síða stofnuð