Fimm mínútur í jól

Völlur, Reykjanesbæ

Leikskólinn Völlur í Reykjanesbæ tók vel á móti mér um daginn þegar ég kom í heimsókn til að taka upp fallega jólalagið "Fimm mínútur í jól". Það var sannkölluð jólagleði - þrátt fyrir það að upptökurnar hafi farið fram í janúar. Börn úr elstu kjörnum sungu fyrir mig og í myndskeiðinu má meðal annars sjá hverning þau ganga syngjandi alla leiðina yfir í salinn þar sem jólatréð hafði fengið að standa áfram í nokkra daga svo að við gætum tekið upp. Á leiðinni má sjá skemmtilega inni/úti leiksvæðið sem hugsanlega er alveg einstætt hér á landi - enda var leikskólinn upphaflega byggður fyrir börn bandarískra varnarliðsmanna.

Þetta fallega lag er með íslenskum texta eftir Möggu Pálu en hún er stofnandi Hjallastefnunar og hefur mikinn áhuga á tónlist og söng. Þetta er því jólalag sem Hjallaskólar hafa þekkt í allmörg ár, en flest okkar kynntumst líklega laginu á samnefndri plötu sem hljómsveitin LÓN, með Valdimar Guðmundsson í fararbroddi, gaf út árið 2022.

Smellið hér til að hlusta á lagið í flutningi LÓNs á Spotify.

Fimm mínútur í jól

Er það brúða eða bíll, 
bók eða lest?
Þekkir einhver hér 
þennan jólagest,
sem læðist um með sekk 
lætur oní skó
meðan lítil börnin
sofa vært í ró.

Hvíldu höfuð hljótt.
Hlustaðu, það kemur senn jólanótt. 
Úti er snjór - úti er kalt
úti hljóma jólabjöllur yfir allt.

Lag: Roger Miller ("Old Toy Trains", 1967)
Texti: Margrét Pála Ólafsdóttir

Lagið með gítargripum (pdf)

Myndskeið

Í myndskeiðinu sést hvernig Ragga (Ragnheiður Sölvadóttir) vinnur með líkamsstöðu og dreifingu barnanna í hópnum þegar þau eru að fara að syngja. „Tökum okkur pláss. Erum við rúsínur? (látum lítið fyrir okkur fara) Eða erum við hnetur? (þá erum við stærri, út með handleggi og tökum okkur pláss)“.

Málörvun

Myndskeiðið kynnir ennig frábæra leið til að vinna með söngtexta. Bæði má sjá leikmuni sem Ragga notar til að gera lagið sjónrænt og áþreifanlegt fyrir börnin og einnig hvernig hún vinnur með myndrenninga og myndir sem börnin hjálpast að við að raða í rétti röð.

Önnur skemmtileg leið sem Ragga oft notar til að vinna með málörvun að segja orðin vitlaust (t.d. "díll" í staðinn fyrir "bíll"). Þá leiðrétta börnin kennarann og verða orðin oft minnisstæðari fyrir þau þegar aðeins er bullað með þau líka.

Myndirnar sem Ragga notar eru hér í pdf-skjali til útprentunar.

Leikskólinn Völlur

Leikskólinn Völlur er á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann var stofnaður árið 2007 og er rekinn af Hjallastefnunni ehf. samkvæmt þjónustusamningi við Reykjanesbæ. Í skólanum eru 102 börn og 70% þeirra hafa íslensku sem annað eða þriðja mál.

Það var gaman að fá að hitta þennan flotta krakkahóp ásamt kennurunum þeirra, Röggu, Freyju og Heiðrúnu sem er verkefnisstjóri fjölmenningar á Velli.

Takk kærlega fyrir mig. Þetta var yndislegur dagur!

Síðast breytt
Síða stofnuð