Gaggala-gú

Þetta lag er skemmtilegt að syngja með yngstu börnunum og er upplagt að syngja á vorin þegar margir leikskólar fara í sveitaferð. Við byrjum á að fara út í sveit til að sækja lítinn hana, en hann á að vekja okkur snemma morguns. Síðan bætast sveitadýrin við koll af kolli og alltaf syngja börnin hljóð dýranna sem hluti af viðlaginu. Lagið er að finna á geisladisknum Maja Maríuhæna og önnur barnalög.

Gaggala-gú

Ég (G) skaust í skyndi’ á næsta sveita-(D)bæ
til að sækja lítinn hana (G) þar
lítinn hana gaggala-gaggala-(D)gú
sem snemma morguns vekur (G) mig

Ég skaust í skyndi’ á næsta sveitabæ
til að sækja litla hænu þar
litla hænu gokk, gokk, gokk
lítinn hana gaggala-gaggala-gú
sem snemma morguns vekur mig

Ég skaust í skyndi’ á næsta sveitabæ
til að sækja litla kisu þar
litla kisu mjá, mjá, mjá
litla hænu gokk, gokk, gokk
lítinn hana gaggala-gaggala-gú
sem snemma morguns vekur mig

Ég skaust í skyndi’ á næsta sveitabæ
til að sækja lítinn hund þar
lítinn hund - voff, voff, voff
litla kisu mjá, mjá, mjá
litla hænu gokk, gokk, gokk
lítinn hana gaggala-gaggala-gú
sem snemma morguns vekur mig

...lítið lamb - me, me, me

...lítinn gris - öff, öff, öff

...lítið folald - ííh-hí-hí-híí

Lag: Grísk þjóðlag
Texti: Baldur A. Kristinsson
Lagið á Spotify

Myndskeið

Hér er stutt myndskeið sem sýnir brot úr samverustund þar sem börnin fóru í hlutverk dýranna. Myndskeiðið var tekið upp á Aðalþingi vorið 2023.

Notkunarmöguleikar

Það er gaman að segja frá því að það hefur átt sér stað töluverð þróun í því hvernig ég hef notað lagið í samverustund. Ég lýsi fjórum leiðum hér að neðan. Allar leiðir virka vel en megináherslan hjá mér hefur flust frá skilningi barnanna yfir á þátttöku þeirra.

(A) Myndræn framsetning

Ég teiknaði upp myndir af dýrunum og setti í eins konar bók með textanum. Á hverri blaðsiðu bættist við nýtt dýr þar til þau voru sjö talsins. Það gerði af verkum að börnin áttu auðvelt með að muna röðina á dýrunum og þau fengu líka fjöldann á tilfinninguna. Það væri auðvitað líka hægt að búa til myndrenning í sama anda. Hér er bókin sem PDF-skjal.

(B) Sagan á bak við lagið

Næsta skref var að finna leikmuni, bæði spjald sem sýnir bóndabæinn, plastdýr, bóndann og pallbíl - og líka bilaða vekjaraklukku. Sagan sem ég segi gengur út á að ég hafi sofið yfir mig af því að vekjaraklukkan mín bilaði þannig að ég keyrði út í sveit og bankaði upp á hjá bóndanum og spurði hvort ég mætti fá lánaðan hana hjá honum. Það er hægt að spinna vítt og breitt út frá þessu og tengja inn alls konar orðaforða um sveitalífið og húsdýrin. Til dæmis er upplagt að tala um orð eins og "jarmar", "geltir", "galar", "hneggjar", "hrín" o.s.frv.

(C) Börnin velja dýrin

Það er gaman fyrir börnin að hafa áhrif á í hvaða röð við sækjum dýrin og jafnvel hvort sum dýrin séu ekki hefðbundin húsdýr. Þessi útgáfa gerir erfiðara að muna röðina þegar fjölgar í dýrahópnum þannig að kannski viljum við sýna dýrin einvhers staðar. Barnið sem velur næsta dýr getur þá t.d. komið upp á töflu og teiknað dýrið.

(D) Börnin fara í hlutverk

Börnin fara í hlutverk dýranna og jafnvel líka bóndans og þess sem kemur til að sækja dýrin. Myndskeiðið hér að ofan sýnir þessa útgáfu en þar bætist í hverju erindi eitt barn við röðina uppi á "sviði". Barnið sem leikur hvert dýr ber auðvitað aðalábyrgð á því að dýrið gefi viðeigandi hljóð frá sér þegar kemur að því í viðlaginu. Þessi útgáfa þjálfar börnin í að koma fram og vera í miðpunkti athyglinnar, en samt á mjög afslappaðan hátt.

Tenging við bók

Bókin What the Ladybird Heard eftir Julie Donaldson er skemmtileg bók þar sem dýrahljóðin eru í miðpunkti. Dýrin leika þar á þjófa með því að skipta um hljóð, þannig að þeir verða kolruglaðir, fara ranga leið og enda á því að vera stungnir af býflugunum. Það er líka gaman fyrir börnin að reyna að finna maríuhænuna á hverri síðu í bókinni.

Síðast breytt
Síða stofnuð