Ó, fagra tré

Þótt Íslendingar hafi ansi oft snúið alls konar erlendum lögum upp í jólalög er hér dæmi um hið gagnstæða. Þetta þýska jólalag er nefnilega almennt þekkt hérlendis sem barnalagið Í skólanum, í skólanum, er skemmtilegt að vera. Sem barn átti ég ömmu og afa í Þýskalandi og mörg þýsk Weinachtslieder eru því í miklu uppáhaldi hjá mér. O Tannenbaum, o Tannenbaum sungum við alltaf á þýsku á mínu æskuheimili og því fannst mér gaman að uppgötva að það var líka búið að gera alvöru íslenska þýðingu af því.

Hér fyrir ofan má sjá fallaga heimagerða pappakassa-jólatréið með heimagerðu jólaskrauti sem börnin á Urðarhóli gerðu fyrir jólaballið okkar um daginn.

Annað sem gaman er að sýna ykkur og segja frá er uppáhaldsleikefnið okkar á deildinni þessa dagana: Einn pabbinn kom með fulla kassa af afgangspappaglösum sem börnin nota til að stafla og byggja úr. Skemmtilegast er auðvitað að gera úr þeim jólatré eins og sjá má í myndskeiðinu. Það nær næstum í loft!

Ó, fagra tré

Ó, fagra tré, ó, fagra tré
sem fjallahlíðar þekur.
Þú sígrænt ert í sumartíð
og sortakaldri vetrarhríð.
Ó, fagra tré, ó, fagra tré,
þú fögnuð okkar vekur.

Ó, fagra tré, ó, fagra tré
við fögnum þér um jólin.
Í stofu hjá oss stendur eitt
með stjörnutopp og ljósum skreytt.
Ó, fagra tré, ó, fagra tré,
Nú fer að hækka sólin.

Ó, jólatré, ó, jólatré
sem jólaskarti klæddist.
Þú vekur okkur von og trú
og viljastyrk er syngjum nú.
Ó, jólatré, ó, jólatré,
nú Jesúbarnið fæddist.

Laglína: Í skólanum, í skólanum
Þýskt þjóðlag: O Tannenbaum, O Tannenbaum
Þýðing: Sigurður Björnsson
Lagið með gítargripum og nótum er í bókinni Jólasöngvar - nótur frá NótuÚtgáfunni.

Myndskeið

O Tannenbaum

O Tannenbaum, o Tannenbaum,
wie treu sind deine Blätter!
Du grünst nicht nur zur Sommerzeit,
nein, auch im Winter, wenn es schneit.
O Tannenbaum, o Tannenbaum,
wie treu sind deine Blätter!

O Tannenbaum, o Tannenbaum,
du kannst mir sehr gefallen!
Wie oft hat nicht zur Weihnachtszeit
ein Baum von dir mich hoch erfreut!
O Tannenbaum, o Tannenbaum,
du kannst mir sehr gefallen!

O Tannenbaum, o Tannenbaum,
dein Kleid will mich was lehren:
Die Hoffnung und Beständigkeit
gibt Trost und Kraft zu jeder Zeit,
o Tannenbaum, o Tannenbaum,
dein Kleid will mich was lehren.

Lag: Þýskt þjóðlag
texti: Ernst Anschütz (1780-1861)

Myndir

Síðast breytt
Síða stofnuð