Piparkökusöngurinn

Á Aðalþingi búa börnin til piparkökur og bjóða foreldrum í jólakakó. Til að undirbúa þau fyrir jólabaksturinn fannst mér tilvalið að syngja með þeim Piparkökusönginn úr Dýrunum í Hálsaskógi. Eins og allir vita er það fyndnasta þegar víxlað er mælieiningunum á pipar og sykri og við hnerrum hátt. Þetta lag klikkar aldrei og það verður bara enn skemmtilegra af því að vera með fullt af leikmunum og leyfa börnunum að smakka sykurinn og finna lykt af piparnum.

Piparkökusöngurinn

[C] Þegar piparkökur bakast 
köku- [G7] gerðarmaður tekur 
fyrst af öllu steikarpottinn 
og eitt [C] kíló margarín.

Bræðir yfir eldi smjörið
en það [F] næsta sem hann gjörir 
er að [C] hræra kíló sykurs 
saman [G7] við það, heillin [C] mín.

[C] Þegar öllu þessu er lokið 
hellast [G7] átta eggjarauður 
saman við og kíló hveitis 
hrærir [C] oní pottinn vel.

Síðan á að setja í þetta 
eina [F] LITLA TESKIÐ pipar 
svo er [C] þá að hnoða deigið,
breiða [G7] það svo út á [C] fjöl.

Lag: Christian Hartmann og Thorbjörg Egner
Texti: Kristján frá Djúpalæk þýddi ljóð leikritsins á íslensku. Það var frumsýnt á Íslandi árið 1962 með þeirri þýðingu í Þjóðleikhúsinu.

Leikþáttur

Ég geri alltaf smá leikþátt úr þessu lagi og fer í gervi Hérastubbs bakara. Það gefur líka góðan möguleika á að fara djúpt í orðaforðann og samhengið í textanum. Það sakar heldur ekki þegar manni tekst að fá samkennara með sér að leika Mikka ref eins og sjá má á mynd hér að neðan, þar sem "Mikki" grettir sig þegar hann er að smakka vonda piparköku.

Hérastubbur bakari er með uppskrifina á hreinu.

Baksturinn

Eftir samverustundina fóru börnin með kennurum sínum að rúlla út piparkökudeigið og "stimpla" piparkökur með formum. Auðvitað var smakkað á deiginu til að tryggja að ekki væri í því of mikill pipar.

Eldri börnin teiknuðu sjálf myndir og skáru út og skreyttu piparkökur sem líktu eftir þeim. Hérna má sjá hvernig eitt barnanna túlkaði jólaköttinn:

Jólaköttur sem teikning

Jólaköttur sem piparkaka

Hér sjást nokkur fleiri dæmi um piparkökurnar sem eldri börnin hönnuðu, bökuðu og skreyttu:

Myndskeið af YouTube

Ég hef því miður ekki sjálf gert myndskeið með Piparkökusöngnum en hér er eitt af YouTube:

Hér er sungið "púður" í stað "sykurs" (og er þar væntanlega átt við púðursykur).

Síðast breytt
Síða stofnuð