Neðansjávartónlist

Hópur fimm ára barna vann þemavinnu um "Sögu af Suðurnesjum" (Jóhannes úr Kötlum) þar sem strákur einn dettur í sjóinn. Við ímynduðum okkur at við værum sjálf í neðansjávarheimi og börnin stungu upp á að þar væri neðansjávarhljómsveit. Í framhaldi gerðu þau sína eigin neðansjávartónlist og líka söngtexta um hljómsveitina. Hér má hlutsta á brot úr upptökum barnanna sjálfra og einnig sjá myndskeið af ferlinu og af skuggaleikhússýningu barnanna.

Kastalinn á hafsbotninum

Hljóðupptökur

Hér er hægt að hlusta á brot úr upptökum barnanna af neðansjávartónlistinni. Sjá lýsingu á vinnuferlinu hér fyrir neðan og myndskeið úr skuggaleikhússýning barnanna:

Nedansjavartonlist.mp3

Neðansjávartónlistin var gerð með því að börnin fóru að rannsaka hljóðið í alls konar dóti og drasli, úr plasti, málmi og tré. Síðan völdu þau sér hvert sitt "hljoðfæri" tóku upp með hljóðnema beint í tölvu. Þau tóku líka upp alls konar vatnshljóð (í flöskum, úr krana, í sturtuklefa og klósetti) og nokkur venjuleg hljóðfæri eins og bjöllur og xýlófón. Brot úr þessu ferli má sjá á fyrra myndskeiðinu neðar á síðunni.

Þessa neðansjávartónlist notuðum við síðan í leik með ljós og skugga í hafinu þar sem hafmeyjar og hákarlar (sem þau höfðu teiknað, skreytt og hengt á prik með bandi) léku aðalhlutverkið.

Ekki má gleyma að nefna kafarabúninginn, sem börnin gerðu úr pappakassa. Hann sést á myndinni hér að neðan.

Dásamlegur kafarabúningur

Textasmíð

Börnin gerðu líka sinn eigin söngtexta um það sem þau upplifðu á hafsbotni. Laglínan sem varð fyrir valinu var úr laginu um dýrin í Afríku, því það er auðvelt að syngja hana og vegna þess að það er ekki nauðsynlegt að línurnar rími. Við (kennararnir) bjuggum til fyrsta erindið og svo létum við hugmyndaflug barnanna um afganginn.

Í neðansjávarheimi

Að synda um á hafsbotni 
í neðansjávarheimi
er alveg eins og ævintýr
Þar er svo margt á sveimi
Oja oja a-ha-ha
Oja oja a-ha-ha
Er alveg eins og ævintýr
Þar er svo margt á sveimi

Hákarlinn hann svaf svo fast 
að hann gat ekki vaknað
Við kölluðum og öskruðum
og dingluðum sporðinum í hann
Oja oja a-ha-ha
Oja oja a-ha-ha
Við kölluðum og öskruðum
og dingluðum sporðinum í hann

Núna kemur lúðrasveit
með hafmeyjum og fiskum
Krabbar spila' á tennurnar
og smella saman klónum
Oja oja a-ha-ha
Oja oja a-ha-ha
Krabbar spila' á tennurnar
og smella saman klónum

Kolkrabbinn spilar á píano
og lúður og trommur
Sæhestar og skjaldbökur
spila líka á lúður á trommur
Oja oja a-ha-ha
Oja oja a-ha-ha
Sæhestar og skjaldbökur
spila líka á lúður á trommur

Krókódíll á bassanum 
og krossfiskur á fiðlu.
Marglytta á rafmagnsgítar
sæskrímsli á hörpu
Oja oja a-ha-ha
Oja oja a-ha-ha
Marglytta á rafmagnsgítar
sæskrímsli á hörpu

Textann samdi: Hákarla-og-hafmeyju-hópur (5 ára börn á Urðarhóli).

Myndskeið

Á þessu myndskeiði sjást svipmyndir úr ferlinu í þemavinnunni og úr skuggaleikhúsi barnanna:

Á síðara myndskeiðinu syngja börnin lagið með textanum sem þau sömdu:

Kennarar: Birte Harksen og Ingibjörg (Imma) Sveinsdóttir (12.11.08)

Síðast breytt
Síða stofnuð