Pétur og úlfurinn

Ég gerði fyrir nokkrum árum litla texta sem passa við laglínuna fyrir hvert dýr fyrir sig og hjálpa okkur til að þekkja tónstefin í sundur. Stefið hans Péturs er mjög auðvelt að muna en það er strax erfiðara að muna hin. Hér má heyra þau öll í sömu röð og þau eru listuð fyrir neðan:

Pétur og úlfurinn - hljóðfærastef

Textar við tónstef dýranna

Pétur (strengjakvartett): "Pétur, já, það er ég. Og ég er ekkert hræddur, því að úlfurinn hann kemur aldrei!"

Fuglinn (þverflauta): „Góðan daginn, vinur. Yndislegur dagur er.  Við erum kát og glöð og syngjum því það er sól í dag.“

Öndin (óbó): “Bra bra! Ég fer að synda á tjörninni. Vatnið er svo slétt í dag!“

Kötturinn (klarínett): „Læðist hér, læðist þar. Fuglinn vil ég fá og vonandi fer enginn hér að kjafta frá – mjá!“

Afi (básúna): „Ó, Pétur minn! Ég búinn var að segja þér að þú átt að ve-ra hér kyrr – hjá húsinu!"

Úlfurinn (horn): „Hér út úr skóginum ég kem, svo gættu þín!“

Veiðimen (pákur): „Baaang! Við skjótum hann nú með Bang! Bang!“

Tónlistin er eins og allir vita eftir Sergei Prokofieff, sem samdi verkið fyrir sovéskt barnaleikhús árið 1936 og hefur síðan farið sigurför um heiminn.

Fyrra myndskeiðið: Þáttökusögustund

Þetta eru upptökur úr sögustund þar sem ég meðal annars syng stefin með textunum sem ég samdi. Þegar ég var að "lesa" söguna fyrir börnin gerðist það strax að þau völdu sér hlutverk og þeim fannst ómissandi að nöfnin þeirra væru lesin inn í söguna. (T.d. Bjarki-Pétur, Lea-fugl, Fannar-önd). Við hlógum mikið og það lét sig ekki vanta að börnin fóru að spretta á fætur til að leika hlutverkin sinn í miðri sögustund. Til að tryggja nafnleynd hef ég klippt nöfnin út í myndskeiðinu.

Síðara myndskeiðið: Leikur að bókum

Við Imma (Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir) vinnum saman að verkefninu Leikur að bókum. Þar höfum við fyrir venju að skipta börnunum á deildinni upp í þrjá hópa og leika söguna/bókina með hverjum hópi, en þau leika oft söguna aftur og aftur og skipta um hlutverk. Útfærslan verður aldrei eins hjá hópunum af því að hugmyndaflug barnanna ræður miklu um framvinduna. Hér má sjá stutt dæmi þar sem einn hópur leikur söguna.

Hér má lesa meira um vinnuna með söguna í Leik að bókum.

Nokkrar svipmyndir

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar fyrir nokkrum árum þegar við vorum að leika söguna inni í íþróttasal. Það var líka mjög eftirminnilegt og gaman.

Þrír kettir að reyna að ná fuglinum

Tveir Pétrar er að reyna að veiða úlfinn

Öndin hleypur ein hratt og hún getur. En úlfurinn er enn fljótari

Síðast breytt
Síða stofnuð