Conejito kanínustrákur

Við höfðum gífurlega gaman að því að vinna með hina skemmtilegu bók Conejito eftir Margaret Read MacDonald í elstubarnastarfi á Urðarhóli. Bókin fjallar um kanínu sem tekst að gabba öll rándýrin sem ætla að éta hana. Fyrir utan góðan söguþráð og fallegar myndskreytingar, er þetta gott dæmi um bók sem auðvelt er að nota á fjölbreyttan hátt. Hægt er að syngja lög sem passa við söguþráðinn, og mjög skemmtilegt er að setja upp leikrit - eða jafnvel búa til kvikmynd eins og við gerðum. Sjá hér að neðan.

Í bókinni er sönglag sem er notað þegar kanínustrákurinn er á leiðinni upp fjallið. Það alltaf sungið áður en hann hittir eitthvert rándýrið á leiðinni. Við bættum svo við lagi sem við sungum á sama hátt á leiðinni niður.

Á leiðinni upp fjallið

Ég á gamla frænku 
sem heitir Monika.
Þegar hún fer að dansa
allir segja: O-lala!

Sama laglína og í laginu um Ingiborgu frænku. Í bókinni er lagið líka á spænsku:

Tenemos una Tia,
La Tia Mónica
y cuando sale a bailar
Decimos Ooo la la!

Á leiðinni niður fjallið

Og nú rúlla ég og rúlla
rúlla ég og rúlla
því hún mamma mín
hún bíður mín!

Og því rúlla ég og rúlla
rúlla ég og rúlla
því hún mamma mín
hún bíður mín!

Lagið notaði Bernd Ogrodnik í brúðuleikritinu sínu um Grýlu og pönnukökuna. Textanum breyttum við nokkuð.

"Conejito - the movie"

Við höfðum unnið með söguna fjóra miðvikudaga þegar við gerðum þessa mynd. Börnin höfðu valið sér hlutverk og búið til grímu sem passaði við það. Þau höfðu líka lært nokkur orð á spænsku, sem eru notuð í bókinni. Á fjórða miðvikudeginum vorum við svo heppin að það var mesta blíðskaparveður, þannig að við gripum tækifærið og flýttum okkur yfir á Rútstún til að taka upp meistaraverkið :-)

Það er gaman að segja frá því að rithöfundurinn Margaret Read MacDonald sá þetta myndskeið á YouTube og skrifaði mjög hvetjandi og jákvæða athugasemd sem við Imma urðum mjög glaðar yfir. Í framhaldi af því hófust samskipti við hana sem leiddu til þess að Maraget kom til landsins og heimsótti okkur - og síðar heimsóttum við hana líka í Seattle.

Fyrsta sögustundin

Eftirfarandi myndskeið var tekið upp í allra fyrstu sögustundinni þar sem við unnum með söguna. Imma las bókina fyrir þau og kenndi þeim lögin. Þá vissum við ekki hvernig ætti að bera fram nafn kanínustráksins, og vegna þess að það eru mörg spænsk orð í sögunni vildum við bæta úr þessu. Við fengum því spænskumælandi móður úr leikskólanum til að hjálpa okkur með að læra rétta framburðinn (sem er "Kone-HÍ-dó"). Conejito þýðir annars "litli kanínustrákur" á spænsku.

Kennarar: Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir (Imma) og Birte Harksen.

Síðast breytt
Síða stofnuð