Tjú, tjú, Pikachu!

Varið ykkur! Þetta Pikachu-lag breiðist út eins og eldur í sinu og er algert heilaklístur! Einn daginn kom ég í heimsókn á deild sem var að syngja lagið "Fyrst á réttunni". Það vildi svo til að ég var einmitt með Pikachu-bangsa í körfunni minni þennan dag og þannig varð hugmyndin til að breytingunni á textanum. Reyndar sungum við fyrst að Pikachu væri með gulan maga og mjúka kinn en börnin mótmæltu því tafarlaust og fræddu mig á því að Pikachu sé sko að safna rafmagni í kinnarnar.

Tjú, tjú, Pikachu!

Fyrst á réttunni
og svo á röngunni.
Tjú, tjú, Pikachu!

Fyrst á réttunni
og svo á röngunni.
Tjú, tjú, Pikachu!

Pikachu er vinur minn
með gulan maga 
og rafmagns-kinn.

Pikachu er vinur minn
með gulan maga 
og rafmagns-kinn

Lag: "Fyrst á réttunni" (danskt þjóðlag)
Textabreyting: Birte Harksen
Lagið með gítargripum (PDF)

Myndskeið

Rytma-leikur

Í upphafi myndskeiðsins má sjá hvernig Pikachu hoppar hringinn milli barnanna á meðan við segjum saman: "Pi-ka-chu HOPP!". Þetta var bæði svo að börnin fengju öll tækifæri á að knúsa Pikachu (mjög mikilvægt) en líka til að leggja inn þriggja atkvæða rytmann með klappi á fyrsta atkvæðinu, svo á öðru atkvæðinu klappar hægri hönd á hægra læri og á þriðju atkvæðinu klappar maður vinstri hönd á vinstra læri.

Þetta er inngangs- eða foræfing fyrir aðeins flóknari rytmaleik þar sem við þyljum upp "Pi-ka-chu, Pi-ka-chu, Ee-vee". (Á "Eevee" er klappað tvisvar á brjóstkassann). Síðan er skipt um röð svo að rytminn verður öðruvísi. (Sumir þekkja þennan leik kannski undir nafninu "Banani, Banani, Mangó").

Undirleikur

Undirleikurinn sem ég nota er tekinn úr námsefninu Dansar og hreyfileikir fyrir leikskólabörn (appelsínugul mappa) eftir Kolfinnu Sigurvinsdóttur og Huldu Sverrisdóttir.

Þetta námsefni kom út árið 2002 þegar ég var frekar nýkomin til Íslands og ég man eftir skemmtilegum námskeiðsdegi hjá okkur í leikskólanum þegar þær kynntu dansana fyrir okkur.

Mörg lögin í möppunni eru upphaflega frá Danmörku svo ég þekkti þau mjög vel. Þetta lag heitir á dönsku: Skomagerpolka og sem barn þótti mér viðlagið nú frekar gróft, en þar er sungið: "skomagerdrengen er et svin, for han drikker brændevin".

Í bókinni Allir í leik - Söngvaleikir barna eftir Unu Margréti Jónsdóttur er að finna mjög áhugaverða umfjöllun um sögu lagsins og hina íslensku útgáfu þess (bls. 111-113).

Pikachu-dans

Börnunum finnst líka mjög gaman þegar við vörpum Pokemon GO dansinum upp á vegg og reynum að dansa eins og löng röð af Pikachuum. Hér er dæmi um svoleiðis myndskeið á Youtube.

Síðast breytt
Síða stofnuð