Vorið okkar

Hæðarból, Garðabæ

Ég fór í yndislega heimsókn um daginn í Hæðarból, sem er lítill leikskóli í Garðabæ. Barnakór skólans tók svo ótrúlega vel á móti mér og hélt fyrir mig litla tónleika. Börnin sungu meðal annars glaðlegt frumsamið lag um vorið og sannfærðu mig alveg um að þeim finnst mjög gaman að vera "Krakkarnir á Hæðarbóli". Þetta er svo sannarlega lag sem maður fær á heilann, og það er nú lítið mál að breyta heiti skólans og dreifa þannig gleðinni um allt land, er það ekki?!

Hvernig lagið varð til

Eva og Anna María

Lagið er samið með krökkum sem voru á Hæðarbóli 2016-17. Það var samið fyrir sumarhátíð sem haldin var í Garðabæ fyrir leik-og grunnskólabörn. Eva settist niður með krökkunum og spurði hvað gerist á vorin. Svörin voru skemmtileg og allskonar. Hún setti þetta svo bara saman með smá rími og gerði lag við. Lagið slóg í gegn og má víst segja að það er orðið einkennislag skólanns!

Um svipað leyti varð til hugmyndin um að stofna kór í leikskólanum eins og lesa má frekar um í frásögn Önnu Maríu hér að neðan, en hún er kórstjóri og æfir með börnunum einu sinni í viku.

Vorið okkar

Am         Dm
Laufblöðin vaxa og allt verður grænt.
  Am         Em
Ég leggst í grasið svo mjúkt og vænt.
    Am      Dm
Ég tíni blómin fyrir mömmu,
     Am  Em   Am   
og fer í sveitina með ömmu.

 Am             Dm
Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
 Am             Em
Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
Am          Dm        Am / Em
Hæðarból er skólinn okkar, og hann rokkar!

Sólin fer að hitna og skordýrin fitna,
ormarnir koma, set þá í fötu.
Hunangsflugur suða úti' á götu.
Heyri í spóa, og þarna er lóa.

Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
Hæðarból er skólinn okkar, og hann rokkar!

Á peysunni út ég fer, 
og eyrun eru ber.
Kári vindur farinn er, 
nú fer ég að skemmta mér!

Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
Við erum krakkarnir á Hæðarbóli
Hæðarból er skólinn okkar - og hann rokkar!

Gítarklemma á 4. band
Lag: Ragnheiður Eva Birgisdóttir
Texti: Krakkarnir á Hæðarbóli (2016-17) ásamt Ragnheiði Evu Birgisdóttur.

Myndskeið

Barnakór Hæðarbóls

Anna María Sigurjónsdóttir kórstjóri segir frá:

Sumarið 2016 kom upp sú hugmynd hvort ekki væri spennandi að prófa að hafa kór í skólanum. Á Hæðarbóli hefur verið öflugt tónlistarlíf í mörg ár og barnakór yrði næsta skref til að taka það góða starf lengra. Við ræddum hvað við gætum áunnið með þessari vinnu og vorum sammála um að börnin myndu stórgræða á þátttöku í kórnum. Þau læra að standa í kórröðum og fylgja stjórnanda. Til að ná því standa þau á kórmottum og eiga því sinn stað, þannig ná þau einbeitingu og að bera virðingu fyrir sínu plássi í kórnum og plássi hinna barnanna. Þessi liður er líka mikilvægt innlegg í að börnin læri að bera umhyggju fyrir hvert öðru.

Í kórastarfinu læra börnin að þau eru hluti af hóp og eru þau öll jafn mikilvæg. Þau læra að hlusta á hvort annað en heyra um leið sína eigin rödd, ná samhljómi og bera þannig samábyrgð á að mynda kórinn. Börnin eflast í að fylgja mismunandi hryn og hrynjanda í tónlist og texta sem þau læra utan að yfir veturinn. Markmiðið er svo að það sjáist hve börnin eru stolt og ánægð af vinnu sinni, að það sem þau geta jafnvel ekki ein geta þau gert saman.

Verkefninu var hrint úr vör í ársbyrjun 2017 svo við höfum verið með starfandi barnakór í skólanum í 6 ár. Fljótlega sóttum við um styrk í þróunarsjóð leikskóla í Garðabæ til að fjármagna kaup á ýmsum tækjum og tólum. Við keyptum rafmagnsgítar, magnara, míkrafóna, nótnastadíf, kórmottur, hljóðfæri o.fl. Æfingar eru einu sinni í viku, 30 mín í senn fyrir tvo elstu árganga skólans og er alltaf gítarundirspil. Kórinn er misstór eftir árgöngum og alltaf nýr hópur á hverju hausti.

Við æfum 5-6 lög á hverri æfingu og höfum sett upp myndræn textaspjöld til að hjálpa börnunum að læra flóknari og lengri texta. Þau eru ótrúlega dugleg að læra textana. Stundum spilum við líka lögin af geisladisk eða spotify á meðan þau eru að læra lögin því eyrað er svo fljótt að nema laglínuna. Lögin sem við höfum verið að vinna undanfarið ásamt frumsamda laginu „Vorið okkar“ eru t.d. Stingum af e. Mugison, Vikivaki e. Valgeir Guðjónsson, Do, re, mí og Döggin af rósum úr Söngvaseið, Þakklæti e. Magnús Kjartansson og Komdu með inn í álfanna heim e. Þorvald Bjarna svo eitthvað sé nefnt.

Barnakórinn syngur við ýmis tækifæri á vegum Garðabæjar t.d. við skóflustungu nýrra leikskóla í bæjarfélaginu, á íbúðafundum, fyrir eldri borgara í Jónshúsi, leikskólastjórnendafundum, tendrun jólatrés í bænum og fleiri tækifæri.

Það er gaman að syngja og alveg sérstaklega öll saman í kór 😊

Síðast breytt
Síða stofnuð