Vorvindar glaðir

Ég geri þetta þekkta lag lifandi fyrir börnunum með því að gera leikmynd og finna fígúrur. Þær nota ég þegar ég segi börnunum sögu til að auka innlifun þeirra og skilning. Sagan fjallar um það að ég fer upp í sveit með strákinn minn ("hjartað mitt litla") og segi honum frá því sem ber fyrir sjónir og því sem heyra má í náttúrunni.

Ég legg sérstaka áherslu á hljóðin í vindinum, læknum o.s.frv. Börnunum finnst sérstaklega fyndið og skemmtilegt að heyra söng fossbúans sem gægist syngjandi fram úr "sturtunni" sinni í fossinum...

(Fossbúinn er annars fugl, en það er skemmtilegra að ímynda sér að hann sé eins konar tröll á gægjum).

Vorvindar glaðir

Dm        F
Vorvindar glaðir, glettnir og hraðir,
A7        Dm      A7
geysast um löndin rétt eins og börn.
Dm        F   
Lækirnir skoppa, hjala og hoppa,
A7         Dm
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
F         C
Hjartað mitt litla hlustaðu á,
Dm       A7
hóar nú smalinn brúninni frá.
Dm        F
Fossbúinn kveður, kætir og gleður,
A7         Dm
frjálst er í fjallasal.

Lag: sænskt þjóðlag
Þýðandi: Helgi Valtýsson (sænskur texti eftir Julia Nyberg)

Tilbrigði við textann

Útgáfan af textanum hér að ofan er sú sem flestir sem ég hef spurt hafa lært í skóla. Þetta er samt nokkuð örugglega ekki upphaflega útgáfan sem Helgi Valtýsson samdi. En hvað það var sem stóð í henni er eftir því sem ég kemst næst mjög óvíst!

Á þremur stöðum er textinn nokkuð á reiki þar sem fólk hefur lært mismunandi útgáfur af honum. Þetta kemur fram bæði á prenti, í upptökum og á netinu þar sem eiginlega allar semsetningar af þessum þremur orðum er að finna:

 • lundinn/löndin í 2. línu
 • rétt/létt í 2. línu
 • fjalladal/fjallasal í síðustu línu

Elsta útgáfan af textanum sem ég hef getað fundið á prenti er Skólasöngvar gefnir út að tilhlutun Fræðslumálastjórnarinnar, I. hefti, frá 1922. Mynd af henni er hér að neðan. Ég veit reyndar að lagið var einnig í eldri útgáfu af þessu riti frá 1906-11 sem Sigfús Einarsson gaf út.

Ég er nokkuð viss um að “lundinn” er rétt miðað við upphaflega þýðingu Helga því að sænski textinn er með það (þótt að hann sé reyndar innihaldslega nokkuð frábrugðinn að öðru leyti. En eiginlega allir sem ég hef spurt syngja samt „löndin“.

Varðandi létt/rétt er „létt“ líklega ekki í upphaflegu útgáfunni en hefur laumast inn til að bæta við óþarfa aukastuðlun. Auk þess er mér tjáð að „rétt“ sé málfræðilega eðlilegra. Hér er er skiptingin samt nokkuð jöfn milli viðmælenda minna.

Varðandi „fjalladal“ eða „fjallasal“ hafa flestir sem ég hef talað við lært „fjallasal“ og mér finnst það líka fallegra. En það er samt “fjalladal” sem stendur í þessari elstu útgáfu sem ég gat fundið, þannig að mér finnst líklegt að það hafi verið það sem stóð í upphaflegu þýðingunni.

Ég vil annars þakka fyrir ábendingu sem ég fékk frá notanda vefsins sem leiddi til þess að ég fór að grúska í textanum og reyna að finna út hvaða tilbrigði af honum er „rétt“.

Myndskeið af YouTube

Síðast breytt
Síða stofnuð