Á Sprengisandi

Sem útlendingur átti ég lengi erfitt með að skilja textann í þessu lagi og ég hugsaði að þannig væri það kannski líka fyrir börn á leikskólaaldri. Þegar lagið var útskýrt fyrir mér var ég alveg heilluð. Ég legg mig þessvegna alltaf fram við að lýsa atburðarásinni vel fyrir börnunum. Leiðin sem ég fer til þess er að sýna þeim bakgrunnssögu sem eins konar leikrit með playmo-köllum og öðrum leikmunum.

Eftir frásögnina ættu börnin að geta skilið hvað er að gerast: hvað mennirnir eru að gera; hvernig þeim líður; hvers vegna þeir eru hræddir og við hvað þeir eru hræddir (draugar, tófan, útilegumenn, álfadrottningin); og hvað ýmis erfið orð merkja (eins og t.d. drösull, klár og gandur fyrir hest). Auðvitað tölum við líka um örnefnin og skoðum kort af Íslandi til að sjá hvar staðirnir eru. Ég segi þeim jafnvel að mennirnir hafi átt heima á Svartárkoti lengst inni í Kiðagili.

Á Sprengisandi

Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, 
rennur sól á bak við Arnarfell. 
Hér á reiki' er margur óhreinn andinn 
úr því fer að skyggja á jökulsvell.

Drottinn leiði drösulinn minn, 
drjúgur verður síðasti áfanginn.
Drottinn leiði drösulinn minn, 
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þei þei, þei þei. Þaut í holti tófa, 
þurran vill hún blóði væta góm, 
eða líka einhver var að hóa 
undarlega digrum karlaróm. 
:,:Útilegumenn í Ódáðahraun 
eru kannski' að smala fé á laun.:,:

Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, 
rökkrið er að síga' á Herðubreið. 
Álfadrotting er að beisla gandinn, 
ekki' er gott að verða' á hennar leið.
:,:Vænsta klárinn vildi' ég gefa til 
að vera kominn ofan í Kiðagil.:,:

Notið gítarklemmu á 3.þverbandi

Lag: Sigvaldi Kaldalóns
Texti: Grímur Thomsen

Myndskeið með fjögurra ára börnum

Eldra myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð