Hreyfiteikning við tónlist

Það er mjög auðvelt að gera sér glaðan dag í leikskólanum með þvi að þekja gólf og veggi (í ekki of stóru rými samt) með stórum pappírsrenningum og hleypa síðan börnunum inn í litlum hópum til að gera hreyfiteikningu við tónlist. Það er svo flott að fylgjast með hverning sameiginlega hreyfilistaverkið breytist og þróast eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Börnin fá krít í hvora hendi sem þau velja sér og síðan mega þau rúlla, snúast, hoppa, hlaupa og hnoðast með tónlistinni, en skilja um leið eftir sig slóð með krítinni þar sem þau fara.

Áherslan er á frjálsar hreyfingar og teikningu sem ekki krefst færni heldur losar um höft og ýtir undir tjáningu. Var þetta dálítið erfitt fyrir börnin í fyrstu þar sem meðvituð teikning er svo innprentuð í okkur, en þau áttuðu sig smám saman á að líkaminn væri að teikna í þessu ferli.

Hugmyndina fengum við frá ítalska tvíeykinu ,,Segni Mossi" sem hefur verið áhrifavaldur og gleðigjafi í okkar starfi. Segni Mossi vinnur með hreyfingu/dans í tengslum við teikningu/tákn, tónlist myndar stóran part og áherslan er á ferlið.

Fyrir okkur Immu var það dásamlegt að fylgjast með upplifun barnanna og hreyfitilraunum þeirra. Sérstaklega ánægulegt að sjá hjá sumum börnum þegar tortryggni og hik viku fyrir gleði og tjáningu frelsis. Skemmtilegt og eftirminnilegt. Við mælum hiklaust með að prófa. Það er miklu minna mál en maður heldur.

Tónlist

Maður getur að sjálfsögðu notað hvaða tónlist sem er, en við völdum svolítið fjörug og glaðleg lög:
"You've Got To Move" eftir Aaron Neville
"Mambo nr. 5" eftir Lou Bega.

Myndskeið

Síðast breytt
Síða stofnuð