Kjarvalrapp

Kvistaborg, Reykjavík

Þegar ég sá í fréttunum að krakkarnir á Kvistaborg höfðu samið rapp um Kjarval og voru að fara í stúdíó til að taka það upp og gefa það út á Spotify, ákvað ég strax að hafa samband við leikskólann til að heyra hvort þau væru ekki til í að segja okkur meira frá verkefninu og ferlinu hér á Börn og tónlist. Deildarstjórinn Erna Agnes Sigurgeirsdóttir brást heldur betur vel við og ég er viss um að margir kennarar um allt land munu finna innblástur og sitja með bros á vör að lesa lýsinguna og horfa á myndskeiðið eins og ég gerði.

Börnin fluttu Kjarvalrappið á Kjarvalsstöðum við opnun sýningar þar með verkum þeirra (Barnamenningarhátið, 2023)

Erna Agnes segir að kveikjan hafi verið frá barni sem vildi fá að rappa um Kjarval. Kennararnir ákváðu síðan að stækka hugmyndina og fá alla með.

„Við skiptum börnunum niður í hópa og skrifuðum niður allt sem þau sögðu um Kjarval. Þetta eru alfarið þeirra orð. Þetta eru ekki við að segja hvað okkur finnst um Kjarval heldur eru þetta þeirra orð, frá a-ö. Svo erum við núna bara komin í stúdíó til að taka þetta lengra,“ segir Erna Agnes Sigurgeirsdóttir deildarstjóri á Kvistaborg.

Kjarvalrappið

Kjarval er listamaður.
Kjarval er góður að mála náttúruna.
Fyrstu snjóar – snjóinn , sjóinn og hellir.
Og líka svona manneskju, snjókonu.
Öldur!
Hann er í málningarfötum og með fallegan hatt.
Málningarjakka og skítugum vettlingum.
Hann er duglegur að halda á striganum sínum.
Maður sér það ekki strax hvað er á myndinni.
Skoða mjög vel með augunum sínum.
Fyrstu snjóar!
Fjallamjólk!
Það er vatn inn í fjallinu og þegar það verður blátt verður það eins og mjólk.
Kjarvalkrakkarnir erum við!
Kjarvalkrakkarnir mála,
listaverk eins og Kjarval.
Okkar málverk er þarna og er eins og Kjarval gerði!
Og verur, og mold,
og ís,
og snjó,
og líka ljós.
Hann gerði doppur, línur og langan háls.
Snjóverur og huldufólk og álfa og tröll.
Tröll, tröll, tröll.
Eigum við að hrósa honum Kjarval?
Hann er dáinn.
Hann dó bara eins og amma Ranný.
Hann var svo fljótur að mála,
og þá dó hann.
Öll út í málningu eins og Kjarval.
Bara skítugar hendur.
Fyrstu snjóar, fjallamjólk og tröllkarl sem varð að steini
og líka listaverkin eftir Kjarval,
og listaverkið okkar er flott líka.
Ég veit, við gerðum líka listaverk eins og Kjarval.
Við erum Kjarvalkrakkarnir!

Sameiginlegt listaverka barnanna

Fyrstu snjóar

Jóhannes Kjarval

Myndskeið af ferlinu


Erna Agnes Sigurgeirsdóttir lýsir ferlinu

Barnamenningarhátíð 2023
18.-23.apríl

Verkefni: Kjarval, álfar og tröll
Árgangur 2019 og 2018
Kennarar: Erna Agnes, Lisbeth Borg, Kristín, Hrafnhildur, Eva Kristrún, Rakel.

Verkefnið hófst í janúar 2023 og stóð fram til lok mars. Upphaflega átti verkefnið aðeins að vera lítið þemaverkefni en það óx aldeilis í höndunum á okkur þegar Kjarvalsstaðir buðu okkur að vera með sýningu á safninu í tengslum við Barnamenningarhátíð. Þá brettum við upp ermar og fórum að skoða hvernig hægt væri að kynna Kjarval fyrir börnunum. Úr varð dásamlegt þemaverkefni þar sem kennarar sáðu litlum Kjarval-fræjum í frjóa mold barnanna sem tóku svo fallega við hugmyndinni. Það var yndislegt að fylgjast með börnunum víkka út sjónarhorn sitt og læra um listina, lífið og tilveruna.

Við lögðum upp með fastan grunn sem voru svo kallaðar Kjarvalsstundir í hádeginu þar sem við skoðuðum saman listaverk eftir Kjarval og ræddum um líf hans og list. Við ræddum líka um að við séum öll listamenn í skólanum og það sé hægt að búa til allskonar list- ekki bara málverk! Þetta fannst þeim mjög áhugavert.

Fyrstu snjóar og Vinnustofa Kjarvals

Í kjölfarið breyttum við dúkkó í Vinnstofu Kjarvals þar sem við vörpuðum listaverkinu Fyrstu snjóar upp á vegg og ræddum um það hvernig Kjarval málaði. Síðan bauðst börnunum að mála sitt listaverk á lak og úr varð stórt og mikilfenglegt listaverk. Börnin voru mjög áhugasöm. Ferlið var allt saman tekið upp á myndband og hljóðupptöku og var það notað til að sýna með verkinu sjálfu á sýningunni; einskonar heimildarmynd af ferlinu.

Heimsókn á Kjarvalsstaði

Börnin brölluðu ýmislegt á meðan á þessu verkefni stóð. Við heimsóttum Kjarvalsstaði í tveimur hópum. Þar tók Ingibjörg Hannesdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur, á móti okkur en hún var einn af Primus Motor í þessu verkefni og bauð okkur að halda sýninguna. Hún flaug með okkur um listheima Kjarvals og svo völdu börnin sér uppáhalds listaverk til að skissa upp líkt og Kjarval gerði sjálfur á sínum yngri árum.

Kjarval að mála tröll í náttúrunni

Kjarvalsleikur

Leikur og nám er mjög stór partur af verkefninu og fóru börnin reglulega í Kjarvalsleiki þar sem einn klæddi sig upp í Kjarvalsföt og málaði tröllin sem sungu Tröllalagið (Hérna koma nokkur risa tröll) og gengu um holt og hæðir. Þarna gafst þeim einnig færi á að fara í hlutverkaleiki út frá þemanu þar sem þau voru listamenn og voru að mála úti og inni. Við fórum líka í vettvangsferð fyrir aftan Kópavogskirkju þar sem börnin máluðu náttúruna eins og Kjarval gerði. Við bjuggum svo líka til Fjallamjólk í þrívídd og börnin léku sér þar í tröllaleikjum og álfaleikjum með tröllum sem þau teiknuðu á pappa og klipptu út.

Kjarvalrappið verður til

Eitt stærsta verkefnið var svo Kjarvalrappið en sú hugmynd varð að veruleika í lok janúar eftir margar vangaveltur um Kjarval. Börnin voru að hlusta á gamla góða Skólarappið þegar upp kom hugmynd um að Kjarvalrappa. Kennarar gripu þarna bolta barnanna, skiptu þeim í hópa og skrifuðu niður allt sem þau sögðu og vissu um Kjarval. Úr varð mikill ljóðabálkur sem börnin röppuðu að lokum í stúdíó í lok mars og gáfu svo formlega út á Spotify í tilefni Barnamenningarhátíðar og opnunar sýningarinnar.

Sjónvarp og stúdíóupptökur

Börnin voru stolt af listaverkunum sínum

Farið var í heilmikla kynningu á verkefninu út á við enda lá fyrir að setja upp stórkostlega sýningu á Kjarvalsstöðum. Haft var samband við RÚV og stöð 2 sem sýndu verkefninu mikinn áhuga og fylgdu okkur á opnunina sjálfa auk þess að koma með okkur í stúdíó en við höfum samband við stúdíó í Úlfarsárdal sem tók svo fallega á móti okkur. Það þótti börnunum afskaplega spennandi og það var líka gaman að sjá jákvæða umfjöllun um leikskólastarfið í fréttunum 😊

Allt þetta ferli var ótrúlegt og þess ber að geta að börnin áttu hvert einasta litla og stóra verkefni og gerðu að sínu. Hlutverk kennara var að standa til hliðar, fylgjast með og skrá og sá nokkrum fræjum í leiðinni. Allt ferlið var tekið upp á myndband og sýnt á sýningunni. Það þótti okkur mikilvægt til að leggja áherslu á ferlið en ekki endilega lokaafurðina.

Þetta verkefni sýndi hæfni barna og hvað það er mikilvægt að horfa á þau sem sérfræðinga í sínu námi, grípa þeirra bolta og leyfa þeirra hugmyndum að blómstra.

„Mér finnst þetta verkefni Kjarval, álfar og tröll í Kvistaborg, sýna það og sanna hvað börn eru ótrúlega merkilegar manneskjur, hvað þau hafa ótrúlega margt fram að færa, hvað þau eru hæf og að við verðum að hlusta á raddir þeirra.“

Listaverk barnanna á sýningu á Kjarvalsstöðum

Fréttir á Stöð 2

Hér er fréttatími Stöðvar 2 sem Erna Agnes vísar til hér að ofan (27. mars 2023):

Síðast breytt
Síða stofnuð