Lína Línudansari

Leikskólar sem taka þátt í forvarnarverkefninnu "Vináttu" frá Barnheill þekkja væntanlega þetta lag, því að það er eitt af lögunum á tónlistardisknum fyrir 1-3 ára. Hér á myndskeiðinu fyrir neðan er hægt að sjá skemmtilega leið til að nota lagið. Börnin gengu eftir slá á alls konar hátt í lok danstímans hjá mér í dag. Mér fannst það svo sætt og var eiginlega alveg í skýjunum yfir hvað það virkaði vel. P.S. Það var bleikur dagur í dag :)

Tenging við Vináttu

Æfingin skapar meistarann! Það er sterk og ánægjuleg upplifun að ná tökum á einhverju (eins og fyrir línudansara að ganga á línu) og hvað svo ekki að fá að sýna það öðrum og fá lof og klapp. Samt krefst það hugrekkis. Hugrekki af því að línan er svo hátt uppi (í huganum ef ekki raunveruleikanum) og við getum dottið niður. Sumir eru jafnvel lofthræddir. En það krefst svo sannarlega líka hugrekkis að standa einn á sviði (línu) með öll augu á sér og taka þá áhættu að geta mistekist.

Tillaga að breytingu gæti verið að láta börnin vera tvö og tvö saman. Börnin tvö gætu þá valið sér saman aðferð til að fara yfir (t.d. hoppa, skríða, fara aftur á bak) og sýna hinum. Allir klappa þega börnin hoppa niður.

Lína línudansari

Lína línudansmær á heima úti við sjó
Og fyrir línadansinn á hún flotta skó
Heyra má í salnum hrifning mannfjöldans
því Lína er sú besta að stíga línudans.

Lagið má finna á Spotify í möppu sem heitir: Vinátta - Gott er að eiga vin. Fyrir börn yngri en þriggja ára. Það er Ragnheiður Gröndal sem syngur en lagið samdi Anders Bøgelund og er það upphaflega á dönsku.

Síðast breytt
Síða stofnuð