Lítil lirfa

Þetta lag fjallar einfaldlega um lirfu sem á endanum breytist í fallegt fiðrildi og er við sömu laglínu og "She'll be coming round the mountain". Það er að finna á geisladisknum Maja Maríuhæna og önnur barnalög. Það er auðvelt að finna handahreyfingar sem fylgja framvindunni í textanum.

Mér finnst gaman að nota bókina Caterpillar Spring, Butterfly Summer eftir Susan Hood þegar við erum að syngja lagið, en myndin hér að ofan sýnir opnu úr henni þar sem lirfan er að borða laufblað. Það sem gerir bókina svo frábæra er að þetta er "pop-up" bók en lirfan er ekki úr pappír heldur gormi þöktum grænu klæði. Í lokin kemur stórt fiðrildi út úr bókinni.

Lítil lirfa

Lítil lirfa skríður um á laufblaði,
lítil lirfa skríður um á laufblaði.
Svona sæt og lítil lirfa,
voða sæt og lítil lirfa,
og hún skríður bara um á laufblaði.

Hana langar til að borða laufblaðið,
hana langar til að borða laufblaðið.
Svona svöng og lítil lirfa, 
voða svöng og lítil lirfa,
hana langar bara að borða laufblaðið.

Smátt og smátt þá verður lirfan södd og þreytt,
smátt og smátt þá verður lirfan södd og þreytt.
Svona södd og syfjuð lirfa,
voða södd og syfjuð lirfa,
smátt og smátt þá verður hún svo södd og þreytt.

Svo hún býr til lítið hús í kringum sig,
já, hún býr til lítið hús í kringum sig.
Svona dugleg lítil lirfa,
voða dugleg lítil lirfa,
svo hún býr bara til hús í kringum sig.

Síðan breytist hún í fallegt fiðrildi,
síðan breytist hún í fallegt fiðrildi.
Og hún flýgur allan daginn,
já, hún flýgur allan daginn, 
því hún breyttist í svo fallegt fiðrildi.

Lag: Bandarískt þjóðlag (She'll be coming round the mountain)
Texti: Birte Harksen

Önnur barnabók um lirfu

Lítil lirfa

Einnig er hægt að nota hina klassísku barnabók The very hungry caterpillar eftir Eric Carle með þessu lagi. Hún er til í mörgum stærðum og útgáfum, m.a. þeirri sem stelpurnar eru með á myndinni hér að ofan. Sú útgáfa er hér á Amazon.

Síðast breytt
Síða stofnuð