Litla gula hænan

Skemmtilegur texti fyrir rappútgáfu af sögunni um Litlu gulu hænuna. Það eru margar endurtekningar í laginu, þannig að jafnvel þótt hann sé langur geta börnin alveg rappað með. Í fyrstu skiptin er samt æskilegt að maður stoppi eftir hvert erindi og sýni (með bók eða myndum) hvað er að gerast í sögunni.

Litla gula hænan (rappútgáfa)

Í hvert sinn sem dýrin þrjú hafa neitað að hjálpa til gera öll börnin "þumalinn niður" merki og segja "Neeeeh!" (eins og þokuhorn sem hljómar við rangt svar). Við "YO!" gera allir rappmerki með fingrunum (vísi- og litlifingur út, hönd snúið niður). Við "Réttið upp hönd..." rétta öll börnin upp höndina.

Litla gula hænan sagði "Jibbí jæ!
Mikið var ég heppin - ég fann hveitifræ!
Hver ætlar nú að planta fræinu hér?
Réttið upp hönd, sem vilja hjálpa mér!"

"Ekki ég!" sagði kisa. "Ekki ég!" sagði Snati,
"Æ, ég nenni því ekki!" sagði grísinn lati.
"Ef þið eruð svona ofsalega löt og sein,
þá geri ég það bara alveg ein,"
- sagði litla gula hænan og fór - YO!

---

Litla gula hænan sagði "Jú hú hú!
Það er komið að því að slá hveitið nú!"
Hún fer og talar við alla sem hún sér:
"Réttið upp hönd, sem vilja hjálpa mér!"

"Ekki ég!" sagði kisa. "Ekki ég!" sagði Snati.
"Æ, ég nenni því ekki!" sagði grísinn lati.
"Ef þið eruð svona ofsalega löt og sein,
þá geri ég það bara alveg ein,"
- sagði litla gula hænan og fór - YO!

---

Litla gula hænan sagði "Næsta skref,
það er að mala kornið sem ég hef,
svo að úr því verði mjöl, eins og sérhver sér.
Réttið upp hönd, sem vilja hjálpa mér!"

"Ekki ég!" sagði kisa. "Ekki ég!" sagði Snati.
"Æ, ég nenni því ekki!" sagði grísinn lati.
"Ef þið eruð svona ofsalega löt og sein,
þá geri ég það bara alveg ein,"
- sagði litla gula hænan og fór - YO!

---

Litla gula hænan sagði "Hveiti í skál,
við skulum búa til brauð, það er lítið mál!
Hver vill koma hér og blanda vatn og ger?
Réttið upp hönd sem vilja hjálpa mér!"

"Ekki ég!" sagði kisa. "Ekki ég!" sagði Snati.
"Æ, ég nenni því ekki!" sagði grísinn lati.
"Ef þið eruð svona ofsalega löt og sein,
þá geri ég það bara alveg ein,"
- sagði litla gula hænan og fór - YO!

---

Litla gula hænan sagði "Þetta er flott
Nú er brauðið til, og það er heitt og gott.
Svo nú segi ég við alla áður en ég fer:
Réttið upp hönd sem vilja borða með mér!"

"Það vil ég!" sagði kisa. "Það vil ég" sagði Snati.
"Ég vil líka!" sagði grísinn og stóð ekki á gati.
"Fyrst þið voruð svona ofsalega löt og sein,
þá ætla ég bara að borða brauðið alein!"
- sagði litla gula hænan og fór - YO!

Texti: Baldur A. Kristinsson, okt. 2005. Byggt á "Little Red Hen" í Three Singing Pigs eftir Kaye Umansky.

Textinn til útprentunar

Síðast breytt
Síða stofnuð