Dropadans

Þetta er lítil og einföld hugmynd sem má nota í tengslum við rigningarþema eða eins og ég gerði í sambandi við Dropalagið, en það byrjar einmitt á línunni: "Við erum dropar í einu hafi". Þegar ég var að reyna að útskýra fyrir barnahópnum hvað felst í þeirri myndlíkingu, datt mér í hug að bjóða þeim upp á að upplifa það sjálf með því að leika regndropa sem lenda í hafinu og blandast saman þannig að þeir verða allir hluti af stærri heild.

Hér að neðan eru tvö myndskeið sem sýna vel hvernig sama kveikjan getur leitt í mismunandi áttir allt eftir því hvernig barnahópurinn túlkar hana og þróar áfram. Flest börnin eru þriggja ára en það er líka smá brot af dropadansi fjögurra ára barna í fyrra myndskeiðinu.

Tónlist

Lagið sem ég notaði fyrir dansinn heitir "Here Comes the Rain" með Happy Baby. Mér fannst það passa vel við hugmyndina af því að fyrir utan ljúfa laglínu heyrum við greinilegt rigningarhljóð og seinna líka þrumur. Það er hægt að finna lagið hér á Spotify.

Fyrra myndskeiðið

Þegar ég rétti börnunum dropana gaf ég hverjum dropa sama nafn og barnið sem tók við honum, svo að þau tengdu sig við hann. Það var gaman að sjá hvað þeim fannst það merkilegt. Áður en við byrjuðum að dansa sátu þau smástund og kynntust dropunum sínum betur. Í myndskeiðinu heyrum við strák segja "Þetta er dropinn minn. Hann er þriggja ára!" sem er bæði sætt og gefur til kynna að sterk tenging var til staðar.

Síðara myndskeiðið

Þessi hópur varð upptekinn af rigningarpollum, eflaust út af því að þau fengu innblástur af bláa hringdúknum sem við sátum í kringum í upphafi tímans. Þau fengu líka þá hugmynd að blása á dropana og láta þá detta þannig í "pollinn". Þegar við vorum búin með dropadansinn fórum við að spila á hljóðfæri en ég gaf þeim líka færi á að leika sér með fullt af lituðum slæðum. Sumum barnanna datt þá í hug að kasta mörgum slæðum í einu upp í loftið og búa þannig til fallegan regnboga.

fallegur regnbogi

Birta, sjáðu dropann minn!

Síðast breytt
Síða stofnuð