Ingi Indjáni

Þetta litla lag um indjánadrenginn Inga sem er svo mikill kjáni að hann endar í pottinum hennar Grýlu gömlu er mjög vinsælt meðal barnanna í kringum jólin, en það þarf að kynna það vel og varlega svo að sum barnanna verði ekki hrædd. Lagið er að finna á geisladisknum Maja Maríuhæna og önnur barnalög en einnig er hægt að heyra það á Spotify.

Ingi indjáni

Ó, hann Ingi indíáni,
æ, hann var svo mikill kjáni,
því hann fór til að veiða dýr
þar sem Grýla gamla býr!

ÓÓ-óóóÓ-óóóÓ-ÓÓ  x2

Grýla elskar indíána,
já, og sérstaklega kjána,
og hún varð svo glöð og kát
að hún greyið Inga át!

ÓÓ-óóóÓ-óóóÓ-ÓÓ x2

Tónlist: danskt þjóðlag "Sorte Tyr"
Texti: Baldur A. Kristinsson og Birte Harksen

Gítargrip

(Capo í 3.)

//Am/Am/
 /Dm/Am/
 /Dm/Am/
 /E /Am/

//Am /Am /Dm /E Am// x2

Ingi indjáni og Grýla

Hér er myndskeið með smá leikþætti um Inga indjána og Grýlu. Þetta er "live" Birte- og Immustund frá því í desember 2021.

Sagan á bak við lagið

Þegar ég kynni lagið fyrir börnunum (frá 4 ára aldri) nota ég leikmuni sem sjást á myndinni hér fyrir ofan.

Ég byrja á að sýna þeim Inga og segist ætla að segja þeim frá því hvað hann var mikill kjáni: Þar sem Ingi bjó var stór skógur til hægri (öll börnin til hægri búa til skóginn með höndunum) og til vinstri voru há fjöll. (börnin til vinstri búa til fjöllin).

Ingi reið af stað til að fara á veiðar (öll börnin gera hófahljóð), en æ, nei! Sjáið þið hvað hann gerði? Hann fór í vitlausa átt - ekki inn í skóginn heldur upp í fjöllin. "Og hver býr í fjöllunum, krakkar?" - Ó já! Það gerir hún Grýla gamla!

Ingi sér húsið hennar og ákveður að banka upp á til að biðja um vatnsglas (öll börnin hrópa til hans "Ekki gera það, Ingi"). En hann heyrir það ekki, jafnvel þótt við hrópum oftar en einu sinni. Grýla opnar dyrnar (allir gera ískurhljóð) og hún verður svo glöð og kát að hún fer að hoppa og dansa (ég læt Grýlu dansa og hlæja).

Ingi fer inn þótt við hrópum öll til hans að hann megi það ekki, en hann heyrir ekkert í okkur. En hvað hann er mikill kjáni! (Hér er gott að athuga hvort einhver barnanna séu orðin skelkuð - "þið eruð ekkert hrædd við Grýlu, er það?")

Grýla fylgir honum inn að stóra pottinum sínum og býður honum vatn, svo ýtir hún honum út í, spyr hvort hann vilji ekki fara í bað líka og byrjar svo að hita undir pottinum. Alltaf er Ingi jafn jákvæður og jafn mikill kjáni.

Í sjálfri frásögninni segi ég ekki berum orðum að Grýla hafi borðað hann heldur læt ég jafnvel liggja að því að honum hafi að lokum tekist að sleppa. Stundum syngjum við "Þú færð ekki að éta mig, því það er ég sem ræð" alveg eins og í Krókódíll í lyftunni minni.

Síðast breytt
Síða stofnuð